miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Sturla Geir 30 ára


Sturla er 30 ára í dag 31. ágúst. Það er ótrúlegt að það skulu vera orðin 24 ár síðan þessi spræki ljóshærði strákur stóð á tröppunum í Bugðutanganum í bláu adidas skónum með stóru rauðu skólatöskuna á bakinu og var að fara í fyrsta skiptið í skólann ásamt Einari, Hemma, Júlíu og Lindu Björk. Nú er hann orðinn virðulegur heimilisfaðir í Krókabyggðinni sem skreppur til Svíþjóðar að vinna.
Fjölskyldan heima í Bugðutanganum sendir honum bestu afmæliskveðjur og vonar að hann eigi góðan dag þrátt fyrir að vera í burtu frá sínu fólki. Biðjum líka að heilsa Einari.
Heløjse Sverige!

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Í túninu heima

Undanfarna daga hefur staðið yfir menningarhátíð í Mosó undir yfirskriftinni: “Í túninu heima.” Á fimmtudagskvöldið fóru Gunna Steina og sagnfræðingurinn á tónleika í bókasafninu en á þeim lék bæjarlistamaðurinn Símon Ívarsson á gítar. Þegar Gunna Steina var að labba heim úr vinnunni á föstudaginn var kaffihúsastemmning við leikhúsið. Þar utandyra spiluðu Gildrumenn lög Creedence Clearwater Revival við góðan róm viðstaddra sem dilluðu sér í takt við tónlistina. Á laugardeginum var stanslaus dagskrá m.a. íþróttakeppnir, söngvakeppni, dans og varðeldur. Á sunnudeginum fóru Gunna Steina og sagnfræðingurinn ásamt Svönu, gömlu vinkonu Gunnu Steina, á tónleika í Lágafellskirkju en á þeim spiluðu og sungu systkinin KK og Ellen Kristjánsdóttir ásamt Eyþóri Gunnarssyni. Hápunktur menningarhátíðarinnar hefur þó án efa verið pylsupartý þeirra Sturlu og Valda sem haldið var á föstudagskvöldið í Kiwanishúsinu “í túninu heima” hjá Ragnheiði Ríkharðs. Þar skemmti tveggja manna hljómsveit gestunum og aðalnúmer kvöldsins var að afmælisbörnin tróðu upp enda ekki hægt að halda svona partý án þess að Skúli sé tekinn. Gestirnir tóku vel undir því flestir Mosfellingar á ákveðnum aldri þekkja að sjálfsögðu hann Skúla með röndóttan skalla.

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Leið 15 - Hraðferð: Mosó - Hlemmur - Vesturbær


Ekki alls fyrir löngu var tekið í notkun nýtt strætisvagnakerfi í Reykjavík Tilgangurinn með því er að sjálfsögðu að bæta þjónustuna og byggir nýja kerfið ekki síst á því að hafa akstursleiðirnar hnitmiðaðar og beinastar þannig að vagnarnir séu fljótir í förum. Í þeim tilgangi hafa á mörgum stöðum verið búnar til aðreinar á aðalgötunum fyrir strætisvagnana og stoppustöðvarnar verið færðar þangað. Sem dæmi má nefna að leið 15 úr Mosfellsbæ fer nú ekki bara niður á Ártún heldur keyrir beinustu leið frá Reykjum niður að Varmárskóla, síðan í gegnum nýja vesturhverfið og út á Vesturlandsveg. Þaðan áfram niður Ártúnsbrekku og á Grensás. Síðan eftir Suðurlandsbraut að Hlemmtorgi og eftir Snorrabrautinni og Hringbrautinni að Njarðargötu. Síðan eftir Njarðargötunni út á Þorragötu rétt hjá Eggertsgötu og þaðan upp á Suðurgötu og inn á Hjarðarhaga. Fer svo á smá rúnt um vesturbæinn og endar á Meistaravöllum þar sem hin endastöðin er. Ekki eru þó allir sáttir við þessa breytingar. Það líður ekki sá dagur eða ekki sé að minnsta kosti eitt lesendabréf í dagblöðunum frá fólki sem ónægt er með þær. eru þar eldri dömur í miklum meirihluta. Sem dæmi má taka bréf frá "Tveimur aldurhnignum" undir fyrirsögninni:" Herfileg mistök" sem skrifað er af tveimur vinkonum frá barnæsku sem nú eru komnar hátt á níræðisaldur og býr önnur í Vesturbænum og hin í Austurbænum. Önnur lærbrotnaði í fyrra og á erfitt með gang en hin er afleit í baki. Nú er í einu vetfangi búið að fjarlægja biðskýlin í götunni og þeim allar bjargir bannaðar og þær geta ekki lengur heimsótt hvor aðra. Erfitt er að gera öllum til hæfis en Gunna Steina fær ekki séð annað en hér sé um að ræða frábæra samgöngubót fyrir Mosfellinga alla vega enda tekur forstjóri Strætó, sem er Mosfellingur, strætó í vinnuna á morgnanna eftir leikfimi hjá Toppformi og sundsprett í Varmárlaug. Ef Mosfellingar vilja fara í bíó eða á synfóníutónleika taka þeir bara vagninn í Háskólabíó og ef þeir ætla á djammið fara þeir með strætó í bæinn. Gunna Steina er einnig sannfærð um að þær vinkonurnar úr Mosfellsbæ, sem eitt sinn héldu uppi föstum áætlunarferðum milli Mosó og Háskólans og Eggertsgötu taki undir þessa skoðun.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Gunna Steina lasin


Gunna Steina er búin að vera í sumarfríi þessa viku og er svo "ljónheppin" að verða lasin og er búin að liggja nær alla vikuna. Reyndi þó aðeins að taka til hendinni í dag en úthaldið var ekki mikið. Verður þó vonandi orðin hressari á morgun en þá ætlar hún að passa Rúnu litlu og Viktor meðan foreldrarnir eru í brúðkaupi en það virðist vera í tísku hjá Mosfellingum á ákveðnum aldri að gifta sig um þessar mundir. Það sem hefur verið að hrjá Gunnu Steinu er slæmt kvef og þá er nú gott að geta slegið yfir sig gömlu, grænu, Eyja slánni og látið sig dreyma um að vera kannski bara að fara bara kannsi út til Eyja.... eða eitthvað annað!! Helst bara að versla á icebarnum!!
Annars stóð til að vera með heljar mikla Eyja hátíð í Bugðutangabotlanganum í kvöld. En það var blásið af vegna veðurs sem var ekta Eyja veður rok og rigning. Það var lítill undirbúningur af þessari Bugðutangabotlangahátíð. Það kom bara inn um bréfalúguna í gær óundirrituð tilkynning um grillpartý kl. 20. Síðan kom maðurinn hennar Baddýjar og Páll Helgason og bönkuðu upp á og sögðu að þetta urði að bíða betri tíma. Endurskoðandinn stóð í humátt álengdar. Þetta hlýtur að verða mjög mikið fjör þegar af þessu verður.

mánudagur, ágúst 15, 2005

Í Kaldbaksvík


Ekki ýkti Helga Haralds neitt um Kaldbaksvíkina. Þar er yndislegt að vera. Stórbrotið landslag, fugla- og dýralíf, sjávarniður og margt skemmtilegt hægt að gera. Þorsteinn fékk að fara út á sjó og veiddi stóran þorsk sem dugar í nokkrar máltíðir. Hann lærði líka að spila vist og fannst mjög gaman. Við fórum í bíltúr í Veiðileysifjörð, Djúpuvík, Gjögur, Trékyllisvík og Norðurfjörð. Fórum í sund í Krossnesi í Norðurfirði í sundlaug sem er niður við sjóinn. Veðrið hefði mátt vera betra. það var skýjað og frekar þungt og síðan fór að rigna. Við sváfum í tjaldi og það fór mjög vel um okkur. Fengum heimsókn af rollum en minkurinn, sem er með greni rétt hjá, lét sem betur fer ekki sjá sig. Helga Haralds fær bestu þakkir fyrir að bjóða okkur með sér norður í ættarsetrið. Myndir úr ferðinni má sjá í Myndaalmbúmi til hliðar.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Home alone!


Hvers vegna er ég skilin eftir ein heima? Hvað er eiginlega með þetta fólk sem ég bý hjá. Mamma mín fór til Ástralíu og skildi mig eftir hjá afa og ömmu. Nú eru þau farin á Strandirnar með Helgu Haralds og láta mig vera eina heima. Hvað á ég að gera? Ég er alveg vaxin upp úr því að vera með partý. Ég er orðin hundleið á þessum gæjum sem eru alltaf að sniglast hérna í kringum húsið. Jæja, ok. ég reyni bara að slappa af og bíða eftir því að þau komi aftur. Það er nóg af mat hérna hvort sem er. Best að láta ekki gæjana vita að ég er ein heima.
Kveðja
Sigurrós

föstudagur, ágúst 12, 2005

Helga Haralds alltaf hress!


Á morgun föstudag eru Gunna Steina, sagnfræðingurinn og Steini að fara norður í Kaldbaksvík á Ströndum með Helgu Haralds en þar á fjölskylda hennar sumarbústað. Búið er að byrgja sig upp af mat og búsi þannig að ekkert muni skorta enda langt og seinlegt að keyra í næstu sjoppu. En hins vegar mun ekki vera skortur á sundlaugum og heitum pottum frá náttúrunar hendi þarna norður frá, hvort sem er upp til dala eða niður í flæðarmáli. Steini ætlar að taka veiðistöngina með og hver veit nema að honum takist að landa fyrsta fiskinum sínum í þessari ferð. Helga Haralds sendir nöfnu sinni og fyrrverandi starfsmanni sínum bestu kveðjur og vill láta hana vita að hún sé að fara með fjölskylduna í Bugðutanganum í algjöra náttúruparadís.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Sveinn í nýrri peysu


Gunna Steina er búin að klára að prjóna írsku peysuna fyrir Svein. Hann tekur sig bara vel í peysunni en það gæti þurft að stytta aðeins ermarnar. Hann ætlar að skipta um dempara í Hyundæjunni við tækifæri. Þeir Sveinn og Hans, ásamt föruneyti, eru búnir að þeysa um þýskaland, Sviss, Ítalíu og Austurríki undanfarnar vikur á tveimur bensum. Voru í viku við Gardavatnið og fóru síðan til Austurríkis í gegnum ítölsku alpana m.a. til Cortinu. Voru líka nokkra daga í Austurríki og fóru upp m.a. upp í Arnarhreiðrið. Þeir eiga eftir að gefa systur sinni nákvæmari skýrslu. Það var svo mikill afgangur af garninu að nú er Gunna Steina byrjuð á peysu fyrir Viktor.

laugardagur, ágúst 06, 2005

Rúna litla er farin að sitja.



Guðrún Jóna er orðin rúmlega 5 mánaða gömul og er farin að sitja sjálf. Þegar hún verður þreytt leggur hún sig bara. Hún er líka farin að snúa sér við og nota hendurnar. Hún sofnar alltaf með Steina bangsa sem Þorsteinn gaf henni þegar hún fæddist. Rúna litla sendir Helgu bestu kveðjur og þakkar fyrir flotta bolinn.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Sófasettið dæmt ónýtt.


Sagnfræðingurinn hafði um daginn samband við TM húsgögn og kvartaði yfir endingunni á flotta nýja ítalska leðursófasettinu. Verslunin brást vel við og sendi mann á vettvang. Það er skemmst frá því að segja að hann dæmdi sófasettið ónýtt. Sagði að sútunin væri misheppnuð. Verra væri að framleiðandinn væri farinn á hausinn. Kannski ekki að undra! Eigandi TM húsgagna hafði síðan samband og bauð sagnfræðingnum innleggsnótu upp á 120.000 kr. Það fannst honum of lítið enda kostaði settið 200.000 í fyrra þegar það var keypt. Þetta endaði með því að inn um bréfalúguna á Bugðutanganum kom umslag frá TM húsgögnum með innleggsnótu upp á 170.000 kr. Og sagnfræðingurinn má eiga gallaða sófasettið í þokkabót. Og nú er úr vöndu að ráða. Á hann að skella sér á nýtt sófasett og selja hitt fyrir slikk. Eða á hann að nýta fyrra settið lengur og bíða eftir því að TM húsgögn fara á hausinn þannig að innleggsnótan verði ónothæf?

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Vá, risa sápukúla!!



Viktor Elí fékk pakka frá Helgu vinkonu sinni og frænku í Ástralíu. Rosa flottan bol og sápukúlutæki sem virkar sko flott. Það er hægt að búa til frábærlega stórar sápukúlur. Svo heyrist líka fyndið hljóð í tækinu. Guðrún Jóna fékk líka flottan bol. Bestu kveðjur til Helgu frá Viktori.