Afmæli á Il Pozzo
Skálað í stofunni í Verenda íbúðinni á Il Pozzo
Fyrir framan íbúðina höfum við bæði setkrók og borðstofuborð.
Carla skenkir rauðvín sem framleitt er á búgarðinum Il Pozzo.
Hér býður mamma hennar Cörlu norskri konu upp á spes Toskana rétt
Hér er Carla að skera niður reykt og hangið svínalæri að hætti Toskanabúa
Afmælið hófst með því að skálað var í freyðivíni í íbúðinni okkar. Síðan gengum við niður á neðri hæðina þar sem mamma hennar Cörlu var á fullu að undirbúa kvöldmatinn. Á sumrin er meira um að vera hér en nú eru bara gestir í þremur íbúðum af átta. Tvær norskar konur í einni íbúðinni, danskt par með ungabarn í þeirri annarri og síðan Friðrik og ég í þeirri þriðju. Þetta var hópurinn sem hittist undir fordrink í arinstofunni og talaði saman á skandinavisku. Hinir gestirnir vissu að vísu ekki að um afmælisveislu var að ræða enda greiddu allir fyrir máltíðina á eigin vegum og á sínu eigin gengi.
Og þvílík máltíð. Þeir sem hafa lesið ítalska matseðla vita að þeir eru margrétta. Þegar maður skilur ekki ítölsku er erfitt að panta. Þess vegna er mjög gaman að lenda í ítalskri matarveislu en hún getur ekki endað á öðru en því að maður stendur á blístri.
Máltíðin byrjaði á forrétti sem samastóð af snittum, ólífum, ostum og súpu. Síðan kom niðursneidd hráskinka og brauð, þar næst frábært pasta sem við fengum okkur tvisvar af vegna þess að við héldum að það væri aðal máltíðin en þá átti eftir að koma kjötmáltíð, svínakótelettur með salati og kartöflum og að lokum eftirréttur, dýrindis súkkulaðikaka með rjómadesert, kaffi og líkjör. Með matnum var boðið upp á rauðvín sem framleitt er á búgarðinum Il pozzo.
Ég spurði Cörlu hvað húsin á Il Pozzo eru gömul og hún sagði að þau væru frá þrettándu öld. Þessu get ég vel trúað því þó að allt sé hérna mjög smart og skemmtilega skreytt þá eru veggir og gólf greinilega mjög gömul. Þegar sagnfræðingurinn heyrði að húsakynnin væru frá 13. öld fór hann að spá í hvort Sturla Sighvatsson hefði hugsanlega komið hér við og fengið sér rauðvínsglas á leið sinni suður til Rómar á fund páfans á einmitt þrettándu öld.
1 Comments:
Elsku Gunna.
Við í Florida óskum þér til hamingju með afmælið.
Við sjáum að það fer vel um ykkur Friðrik þarna hinummegin við Atlandshafið.
kveðja.
Hans og Helga, Ósk og Óli
Skrifa ummæli
<< Home