mánudagur, apríl 30, 2007

Orri kominn með tönn


Hann Orri Victor er kominn með tönn. Það er alveg ótrúlegt hvað drengurinn er búinn að stækka frá því að ég var í heimsókn í haust. Hann verður farinn að hlaupa um áður en maður veit af og sjálfsagt fljótlega altalandi á bæði ensku og íslensku.

laugardagur, apríl 28, 2007

Listamenn í fjölskyldunni

Það leynist margur listamaðurinn í fjölskyldunni. Steini, sem byrjaði í Borgarholtsskóla síðast liðið haust, hefur ákveðið að færa sig af náttúrusviði yfir á listasvið enda stefnir hann á að verða tónlistarmaður. Hann tók myndlistaráfanga á vorönn og kom í gær heim með stærðar málverk. Verkefnið var að ná persónusköpun og sé ég ekki betur en að vel hafi tekist til bæði við málunina og að ná sterkum áhrifum við persónusköpunina. Myndbyggingin er líka góð. Það styrkir myndina að hafa stóran myndflöt fyrir framan manninn og að hafa hann ekki á miðri mynd eins og margir byrjendur myndu gera.

laugardagur, apríl 21, 2007

Í sundi í nýju Lágafellslauginni







Í dag fóru Viktor og Rúna í sund ásamt pabba, afa og ömmu. Ekki var valin lakari laug en hin nývígða Lágafellssundlaug. Þar eru flottar rennibrautir, innisundlaug, barnalaug, gufubað og heitir pottar. Afi skrópaði í sinni sundlaug. Spurning hvort að hann eigi eftir að skipta um laug. En þau systkinin Viktor og Rúna skemmtu sér mjög vel og eiga sjálfsagt eftir að venja komur sínar í nýju lauginni.

þriðjudagur, apríl 10, 2007

Á heimleið



Eftir fimm daga í Bandaríkjunum lá leið okkar heim á leið. Til að hafa varan á pöntuðum við leigubíl klukkan 10 miðvikudagsmorgun enda var rigning og umferðin virtist þung. Leigubilinn var samt fjótur í förum og um klukkan hálf ellefu voru við komin á Penn station í Newark, New Jersy. Lestin okkur átti að fara rétt fyrir eitt en okkur var boðið far með lest klukkutíma fyrr og þáðum við það. Klukkan var því orðin hálf þrjú þegar við komum til Baltimore, Washington, alþjóðaflugvallar. Á leiðinni stoppuðum við á nokkrum stöðum, Metropark, Trenton, Philadelphia, Whilmington og Baltimore.
Það var ekki hægt að tékka sig inn fyrr en kl. hálf fimm. Vélin átti að fara kl. Níu og vorum við komin út í hana tímalega. Þá var tilkynnt um seinkun vegna bilunar og biðum við í einn og hálfan tíma í vélinni þar til lagt var af stað til Ísland. Við lentum heim kl. 8 og biðu þá vélarnar til borga í Evrópu eftir farþegum úr okkar vél. Sigrún var t.d. að fara í flug til Amsterdam og var klukkutíma seinkunn á hennar vél fyrir vikið.
Tollararnir voru áhugasamir um gítarinn hans Þorsteins og báðum að sja kvittun. Það var ekki vandamálið. Við vorum með kvittun og gátum sýnt að hann kostaði bara 20 þúsund og því leyfilegt að koma með hann inn i landið án þess að borga toll.
Heim vorum við komin um 10 leytið og tók Sigurrós á móti okkur fagnandi.
Þetta var hin besta Ameríkuferð og held ég að við öll séum ánægð með hana og verður hún lengi í minni höfð.

miðvikudagur, apríl 04, 2007

Í skoðunarferð um New York



Í dag fórum við niður á Manhattan fyrir hádegi. Við vorum búin að kaupa okkur miða í rúturnar sem keyra á milli áhugaverðra staða og maður getur hoppað af og á. Við hófum ferðina frá Brodway og keyrðum m.a. framhjá Empire state byggingunni. Þar var ótrúlega löng röð af fólki að bíða eftir að komast upp. Við létum okkur nægja að berja bygginguna augum. Sjálf hef ég komið þangað upp en það er orðið nokkuð langt síðan. Ég var 21 árs. Áfram héldum við í gegnum Greewich willage, Soho, Kína hverfið og niður í fjármálahverfið. Þar stigum við út og gengum niður að Ground ciro. Svæðið er umgirt en þar á að byggja turn, Freedom tower, til minningar um þá sem létust í árásinni á tvíburaturnana 9. september 2001. Við héldum síðan áfram með vagni að bryggjunni þar sem siglt er út til Frelsisstyttunnar. Þar var rosalega löng röð. af fólki sem ætlaði í siglingu. Það er víst verið að laga Frelsisstyttuna þannig að maður kemst ekki inn í hana. Við létum okkur nægja að horfa á hana úr fjarlægð. Ég kom upp í hausinn á henni þegar ég var 21 árs. Við settumst inn á subwaystað og fengum okkur að borða en héldum síðan áfram með vagni. Keyrðum eftir Lower east side, sáum stóru brýrnar yfir til Brooklyn. Við keyrðum fram hjá byggingu Sameinuðu þjóðanna og síðan fram hjá Rockeveller center og Central Park og niður á Times square. Við hefðum getað tekið annan vagn upp vest side og inn í Harlem en töldum okkur ekki hafa tíma klukkan var orðin margt. Steini kíkti aðeins í búðir á leiðinni á strætóstöðina og keypti sér buxur og peysu.
Við tókum strætó tilbaka og fengum stórkostlegt útsýni í síðasta sinn yfir Manhattan eftir að við vorum komin New Jersymegin við Hudsonána. Þegar ég var búin að skila þeim feðgum heim á Super 8 skellti ég mér í búðirnar í grendinni, ToyRus, Old Navy og ýmsar aðrar hagstæðar verslanir. Þegar ég kom tilbaka voru þeir orðnir mjög svangir og farnir að velta því fyrir sér hvað myndi ske ef fararstjórinn myndi ekki skila sér. Í sjónvarpinu voru fréttir um konur sem fundist höfðu myrtar í New Jersy..... Feðgarnir vildu fara aftur á Carabian kjúklingastaðinn handan hraðbrautarinnar og lét ég það eftir þeim. Aftur kom spönskukunnátta mín að góðu gagni. Ég mundi að þrettán er trece á spönsku. Pantanirnar voru bara kallaðar upp á spönsku enda aðeins spönskumælandi viðskiptavinir á staðnum fyrir utan okkur.

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Steini keypti nýjan rafmagnsgítar á Manhattan


Það er ótrúlega heimililegt morgunveðarborðhaldið á Super 8. Ef maður mætir á mesta anna tímanum þá borðar hver um annan þveran og þetta er standandi borðhald í orðsins fyllstu merkingu. Á Marriott hótelinu í Washington var þjónað til borðs í morgunmatnum og við fengum matseðil. En á Super 8 þá borða allir í herbergi á stæð við meðal forstofu og flestir eru standandi. En þetta er samt bara mjög fínt miðað við verð. Standandi matstofan er hér beint fyrir neðan okkar stóra herbergi en það má ekki fara með matinn út af henni og við sem erum með þetta stóra borðstofuborð og stóla.
Í morgun fórum við í búðirnar hérna í nágrenninu í Union city. Þetta hverfi er sérstætt að því leyti að það er spænskumælandi að mestu. Stúlka, sem þjónaði okkur á Diners í gærkvöldi, sagði að enska væri hennar annað tungumál og þannig er um flesta hér í nágrenninu. Í kvöld borðuðum við á skyndibitastað handan götunnar. Það var eins gott að ég á að baki þriggja ára nám í spönsku því annars hefði ég tæplega skilið þegar pöntunin okkar var hrópuð upp: cuatro, nueve, uno... Ég hefði rifjað upp spönskuna áður en við fórum ef ég hefði vitað þetta en ég hélt að við værum að fara til Bandaríkjanna þar sem enska er töluð....
Hverfið hérna fyrir ofan er frekar gamaldags eins og maður sé kominn nokkra áratugi aftur í tímann. Í gærmorgun, þegar við gengum um og kíktum í búðir komu allt í einu þrír lögreglubílar með látum og króuðu af tvo sendiferðabíla í Bergenline Avenue. Við sáum að vísu ekki nógu vel hvað gerðist en þetta var eins og í bíó. Þá vissum við að við vorum í Ameríku!
Eftir hádegi fórum við niður á Manhattan. það er auðvelt að fá far þangað. Maður stígur út á gangstéttina fyrir framan hótelið og bíður smá stund þá koma litlar skutlur, stoppa og keyra niður á umferðarmiðstöðina á 42. stræti. Ferðin tekur aðeins um 5 mínútur. Á leiðinni fær maður rosa flott útsýni yfir Manhattan. Í gærmorgun, þegar Friðrik var orðinn leiður á búðarrápinu á mæðginunum í hverfinu fyrir ofan, labbaði hann heim á hótelið meðfram hraðbrautinni. Eitthvað var hann að sveifla höndum og skipti engum togum en að flutningabíll af stærstu sort stoppaði og hélt að hann væri að húkka far.
En þegar niður á Manhttan kom tók við að leita að Samash gítarbúðinni. Við höfðum gleymt að skrifa hana hjá okkur og héldum að við rötuðum. Við gengum eftir nokkrum strætum en settumst síðan inn á Planet Holliwood og fengum okkur að borða. Það er stórkostlegt veitingahús en sjálfsagt hefði Þorsteini fundist merkilegra að koma þangað fyrir nokkrum árum síðan. Þar komumst við í internet og gátum flett upp á heimilisfanginu af gítarbúðinni. Við gengum síðan upp á 48. stræti og þar eru gítarbúðir í röðum hver við hliðina á annarri. Það var merkilegt að við vorum búin að spyrja marga til vegar, fólk í búðum, þjónustufólk á Planet en enginn kannaðist við gítarbúð Samash. Sumir töluðu ekki ensku. Þetta sýnir hvað New York er stór. En það var mikið ævintýri fyrir Þorstein að koma inn í þessar gítarbúðir og fá að taka í nokkra gítara. Hann keypti sér síðan einn þeirra. Við fórum síðan með strætisvagni heim á hótelið aftur og um kvöldið borðuðum við á veitingastað hér handan götunnar en og fyrr sagði.

mánudagur, apríl 02, 2007

Með Grayhound rútu á Super 8 mótel í North Bergen, New Jersy



Þá erum við komin á Super 8 mótelið í New Jersy, sem Hans og Helga mæltu með, gegnt Manattan og Empire State byggingin blasir við. Herbergið er mjög stórt, með tveimur tvíbreiðum rúmum, sófa, útskornum borðstofuskáp, borðstofuborði með fjórum stólum, skrifborði og fatahengi fyrir utan baðherbergið sem er með baðkari. Samt greiðum við miklu minna fyrir nóttina hér en í Washington. Inn um gluggann berst umferðargnýr frá bílum sem eru á leiðinni til og frá Manhattan í gegnum Lincolnjarðgöngin undir Hudsonána. En við erum vel vopnum eyranrtöppum þannig að það ætti ekki að saka.
Okkur líst mjög vel á okkur hérna. Við fórum í göngutúr í nágrenninu eftir að við komum og kíktum aðeins inn í búðir eins og Old Navy en það er fullt af búðum hér í næsta nágrenni. Síðan fórum við að fá okkur að borða á vetingastaðnum Diners, sem Hans mælti með. Að sitja þar inni var eins og að hoppa tilbaka til rocktímabilsins og ekki hefði það komið okkur á óvart ef sjálfur Elvis Presley hefði stokkið fram á gólfið ljóslifandi.
Í kvöld höfum við síðan tekið það rólega og undirbúið ævintýri morgundagsins.
Í morgun kvöddum við flotta Marriott Metro Center, 4 stjörnu hótelið í Washington, með söknuði. Hávaxni dyravörðurinn þeldökki í rauða skósíða frakkanum með hattinn kallaði fyrir okkur á leigubíl með því að flauta hvellt úr flautu sem hann dróg upp úr vasa sínum. Leigubílinn ók okkur á Grayhoundrútubílastöðina. Þar stigum við inn í aðra veröld og okkur varð ljóst að “millar”, sem gista á flottu hóteli, ferðast ekki með rútu. Það er bara sauðsvartur almúginn, í orðsins fyllstu merkingu, sem gerir það. Málið er að það hefði kostað okkur 30.000 að fara með lest til Newark, New Jersy, en kostaði bara 8.000 með rútunni. Kannski var dýrara vegna þess að þetta var Pálmasunnudagur og margir á farandsfæti. Alla vega fannst mér þetta vera helst til of mikill munur. En við sáum ekki eftir þessu þó að ferðin tæki fimm tíma. Þetta var mikil upplifun. Á rútustöðinni vorum við í fyrstu mjög vör um okkur en sáu að það var óþarfi. Húsnæðið var vaktað vökulum augum af lögregluþjónum sem fylgdust grannt með öllu. Þarna voru allir líka mjög spakir. Ferðafélagar okkar í rútunni voru flestir annað hvort þeldökkir eða af spönskum uppruna. Þarna var maður á miðjum aldri sem sat og las upphátt í Nýja textamentinu á spönsku. Ekki var þó sessunautur hans mikið að hlusta. Það var ungur svartur piltur með litlar fléttur. Hann var með heyrnartól í eyrunum og var án efa að hlusta á rabbtónlist. Þarna var líka ung stúlka sem masaði mest alla leiðina í símann. Svo voru það eldri hjónin, mama og papa, sem voru kvödd af mikilli innlifun á rútstöðinni af dætrunum þremur. Papa var greinilega sjúklingur og passaði mama vel upp á hann. Hún var Friðrik óskaplega þakklát þegar hann skreið inn í farangursrými rútunnar, eftir komuna til Newark, og náði í töskuna þeirra. „God bless you my friend” sagði hún með hræðri röddu. Bílstjórinn aðstoðaði farþegana ekki við að ná í töskurnar. Á leiðinni stoppuðum við í nokkrum bæjum og borgum og tókum nýja farþega og aðrir fóru. Sums staðar keyrðum við framhjá flottum húsum en á öðrum stöðum í gegnum ömurlega niðurnýdd hverfi. Þegar við nálguðumst Newark fór umferðin að verða ansi hröð og umferðamannvirkin mikil og stórkostleg. Þá blasti Manhattan líka við með skýjakljúfunum og Empire state. Við tókum leigubíl frá Newark til hótelsins. Vorum heppin að fá mann sem rataði og keyrði rakleiðis í gegnum allar flækjurnar. En hann ar var um sig. Friðrik fannst hann vera í bíómynd. Hann ætlaði að setjast í framsætið, eins og fjölskyldufeður gera gjarnan heima á Íslandi þegar þeir fara í leigubíl, en það stóð ekki til boða. Bílstjórinn var velvarinn með skilrúmi frá farþegunum. Á leiðinni var hann við og við að líta eldsnökkt tilbaka til að tékka á farþegunum og athuga hvort þeir hefðu nokkuð illt í huga.

sunnudagur, apríl 01, 2007

Vorið er komið í Washington



Í gærkvöldi fórum við aftur að Hvíta húsinu en í þetta sinn að framhliðinni. Þá hlið hefur maður oft séð á myndum og í sjónvarpi. Á gangstéttinni fyrir framan húsið býr “Helgi Hóseasson” þeirra Bandaríkjamanna, síðskeggjaður, í tjaldi með hundinum sínum. Allt í kringum tjaldið eru mótmælaspjöld þar sem á stendur meðal annars að Busch sé hryðjuverkamaður. Helgi þessi vekur óneitanlega athygli og ræðir málin við vegfarendur. Ekki þarf hann að óttast að á hann verði ráðist þó að hann gisti þarna í tjaldinu. Hann er umkringdur vel vopnuðum öryggisvörðum. Þeir eru út um allt og meira að segja uppi á þaki Hvíta hússins.
Við ætluðum að borða á einhverju steikhúsi en þau voru full út úr dyrum enda föstudagskvöld þannig að við enduðum á veitingahúsi á hótelinu.
Í morgun keyptum við okkur dagsmiða í neðanjarðarlestarnar og fórum fyrstu salibununa í Arlingtonkirkjugarðinn að leiði Johns F. Kennedy, Jacky og Roberts Kennedys. Það var stórfenglegt að horfa á stórar breiður af hvítum krossum hermanna sem þar hvila undir torfu. Við fórum með lestinni síðan á næstu stoppustöð sem er Pentagon. Þar komum við að læstum dyrum og ekki mikið að sjá þannig að við héldum för okkar áfram að aðaljárnbrautarstöðinni. Þar eru margar búðir meðal annars Victoria Secret og fullt af veitingastöðum. Við héldum för okkar síðan áfram á hótelið aftur en fengum okkur fyrst að borða á “Stjörnutorgi” hér skammt frá. Það er kostur í borgarferðum að búa miðsvæðis og geta farið inn á hótelið og lagt sig. Það gerðum við en seinna um daginn fórum við aftur á stjá. Tókum lestina niður að Smitsonian söfnunum og skoðuðum Flug og geimsafnið. Þar var margt mjög merkilegt að sjá, geimför, geimstöð, tunglbíll, kjarnaoddar, eldflaugar, flugvél Lindbergs sem fyrst flaug yfir Atlandshafið og ótal margt fleira. Þegar við ætluðum heim aftur á hótelið um 5 leytið var ótrúlega mikill troðningur við neðanjarðarlestarstöðina en þarna á safnasvæðinu var saman komið mikið af fjölskyldufólki enda laugardagur og veður eins og best gerist á Íslandi á sumrin. Þarna voru hringekjur og margir með flugdreka á lofti. Við létum okkur hafa það að fara niður í undirdjúpin en við vorum orðin ansi þreytt. En hrædd var ég að týna öðrum þeirra feðga ef ekki báðum. Við komust í lestina en það var rosalegur troðningur. Ég hafði ekkert að halda í. Ég hélt að okkur tækist ekki að komast út úr lestinni aftur. Ég dauðsá eftir að hafa farið niður og var ekki laust við að maður fengi óttatilfinningu ef það kæmi nú sprengja. En þetta gekk og okkur tókst að komast út og upp á yfirborðið aftur. En mér svimaði og var hálf óstyrk í fótum.
Við Friðrik skelltum okkur síðan í sundlaugina og heita pottinn sem er með nuddi og í var freyðandi sápa. Þetta er hreinn lúsxus og við fíluðum okkur eins og milla. Gaman að vera á svona flottu hóteli. Við Þorsteinn fórum síðan út og keyptum pizzu og í kvöld höfum við tekið það rólega. Í fyrramálið liggur síðan leiðin til New York.