sunnudagur, apríl 01, 2007

Vorið er komið í Washington



Í gærkvöldi fórum við aftur að Hvíta húsinu en í þetta sinn að framhliðinni. Þá hlið hefur maður oft séð á myndum og í sjónvarpi. Á gangstéttinni fyrir framan húsið býr “Helgi Hóseasson” þeirra Bandaríkjamanna, síðskeggjaður, í tjaldi með hundinum sínum. Allt í kringum tjaldið eru mótmælaspjöld þar sem á stendur meðal annars að Busch sé hryðjuverkamaður. Helgi þessi vekur óneitanlega athygli og ræðir málin við vegfarendur. Ekki þarf hann að óttast að á hann verði ráðist þó að hann gisti þarna í tjaldinu. Hann er umkringdur vel vopnuðum öryggisvörðum. Þeir eru út um allt og meira að segja uppi á þaki Hvíta hússins.
Við ætluðum að borða á einhverju steikhúsi en þau voru full út úr dyrum enda föstudagskvöld þannig að við enduðum á veitingahúsi á hótelinu.
Í morgun keyptum við okkur dagsmiða í neðanjarðarlestarnar og fórum fyrstu salibununa í Arlingtonkirkjugarðinn að leiði Johns F. Kennedy, Jacky og Roberts Kennedys. Það var stórfenglegt að horfa á stórar breiður af hvítum krossum hermanna sem þar hvila undir torfu. Við fórum með lestinni síðan á næstu stoppustöð sem er Pentagon. Þar komum við að læstum dyrum og ekki mikið að sjá þannig að við héldum för okkar áfram að aðaljárnbrautarstöðinni. Þar eru margar búðir meðal annars Victoria Secret og fullt af veitingastöðum. Við héldum för okkar síðan áfram á hótelið aftur en fengum okkur fyrst að borða á “Stjörnutorgi” hér skammt frá. Það er kostur í borgarferðum að búa miðsvæðis og geta farið inn á hótelið og lagt sig. Það gerðum við en seinna um daginn fórum við aftur á stjá. Tókum lestina niður að Smitsonian söfnunum og skoðuðum Flug og geimsafnið. Þar var margt mjög merkilegt að sjá, geimför, geimstöð, tunglbíll, kjarnaoddar, eldflaugar, flugvél Lindbergs sem fyrst flaug yfir Atlandshafið og ótal margt fleira. Þegar við ætluðum heim aftur á hótelið um 5 leytið var ótrúlega mikill troðningur við neðanjarðarlestarstöðina en þarna á safnasvæðinu var saman komið mikið af fjölskyldufólki enda laugardagur og veður eins og best gerist á Íslandi á sumrin. Þarna voru hringekjur og margir með flugdreka á lofti. Við létum okkur hafa það að fara niður í undirdjúpin en við vorum orðin ansi þreytt. En hrædd var ég að týna öðrum þeirra feðga ef ekki báðum. Við komust í lestina en það var rosalegur troðningur. Ég hafði ekkert að halda í. Ég hélt að okkur tækist ekki að komast út úr lestinni aftur. Ég dauðsá eftir að hafa farið niður og var ekki laust við að maður fengi óttatilfinningu ef það kæmi nú sprengja. En þetta gekk og okkur tókst að komast út og upp á yfirborðið aftur. En mér svimaði og var hálf óstyrk í fótum.
Við Friðrik skelltum okkur síðan í sundlaugina og heita pottinn sem er með nuddi og í var freyðandi sápa. Þetta er hreinn lúsxus og við fíluðum okkur eins og milla. Gaman að vera á svona flottu hóteli. Við Þorsteinn fórum síðan út og keyptum pizzu og í kvöld höfum við tekið það rólega. Í fyrramálið liggur síðan leiðin til New York.

2 Comments:

At 4:49 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Það er greinilega mjög margt hægt að skoða þarna í höfuðborginni, hvað þá í New York. Bið að heilsa.

 
At 12:05 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Kæra Gunna,Friðrik og Þorsteinn.
Gaman að fylgjast með ykkur og sjá að þið njótið þess að vera til og frábært hvað veðrið er gott.

Kveðja,
Helga og Hans.

 

Skrifa ummæli

<< Home