mánudagur, október 10, 2005

Á Snæfellsnesi


Á fimmtudag lagði Gunna Steina land undir fót við þriðja mann og var ferðinni heitið til Ólafsvíkur á fund launafulltrúa. Gist var á Hótel Ólafsvík í mjög huggulegum herbergjum. Þessi ferð var ánægjuleg og fróðleg í alla staði. Þarna báru launafulltrúar saman bækur sínar, styrktu samböndin sín á milli og hlustuðu á fræðsluerindi um lífeyrissjóðsmál og fleira. Farin var skoðunarferð um Ólafsvík, Rif og til Hellisands með bæjarstjóra Snæfellsbæjar sem var hinn skemmtilegasti og fyndnasti fararstjóri. Einnig var farin skoðunarferð fyrir jökul í fylgd með þjóðgarðsverðinum. Keyrt var niður á Djúpalónssand við Dritvík þar sem brimið var tignarlegt. Þá rifjaðist upp kvæði Jóns Helgasonar:

Nú er í Dritvík daufleg vist
drungalegt nesið kalda.
Sjást ekki lengur seglin hvít
sjóndeildarhringinn tjalda.
Tröllakirkjunnar tíðasöng
tóna þau Hlér og Alda.
Fullsterk mun þungt að færa á stall.
Fáir sem honum valda.

Áfram var haldið fyrir nesið og næst var stoppað á Hellnum þar sem hafnarstjóri Snæfellsbæjar tók á mótin hópnum og sagði frá hafnarframkvæmdum á staðnum og bauð síðan upp á léttar veitingar á Arnarstapa. Síðan lá leiðin yfir Fróðarárheiði aftur til Ólafsvíkur eftir að hafa keyrt umhverfis Snæfellsjökul. Um kvöldið var borðaður góður kvöldverður á hótelinu. Það var fallegt veður á Ólafsvík þessa daga. Farið að kólna í veðri og þó nokkur snjór í fjöllum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home