Skammastu þín Sigurrós!
Í gærmorgun hringdi síminn í Bugðutanganum fyrir allar aldir. Það var andfætlingurinn í fjölskyldunni sem var á hinum enda línunnar og sat við síðdegiskaffidrykkju að áliðnum degi hinum megin á hnettinum. Gunna Steina snaraðist fram úr rúminu til að svara símanum hálf vönkuð og með hjartslátt. Erindið var að redda ýmsum málum fyrir andfætlinginn sem umboðsmaður hans hér á landi. Var það að venju auðsótt mál. Að símtalinu loknu hugðist Gunna Steina ganga inn í eldhús til að athuga hvað klukkan væri og rak þá tærnar í mjúkan svartan hlut sem lá á miðjum gangveginum. Þetta var dauður músaungi. Það bjargaði málinu að Gunna Steina var ekki með gleraugun og fókusinn ekki alveg í lagi þarna í rökkrinu á ganginum. Þess vegna slapp hún við að sjá dýrið mjög náið. Sagnfræðingurinn kom síðan fram, náði í plastpoka og gerði veiðina upptæka hjá kettinum. Það er óhætt að segja að ungfrú Sigurrósu var blótað í sand og ösku þarna í morgunsárið.
Sigurrós hefur verið að færa sig töluvert upp á skaftið undanfarið og verið að draga björg í bú sem heimilisfólkið í Bugðutanganum hefur ekki kunnað að meta. Tvo dauða fugla hefur hún komið með inn og einn lifandi. Gunna Steina hefur sjálfsagt sjaldan öskrað jafn hátt og þegar kötturinn kom með þennan lifandi. Allt í einu kom fugl fljúgandi á harða kani upp úr kjallaranum og inn í stofu og Sigurrós um leið á stökki upp tröppurnar. Gunna Steina hljóp og opnaði hurðina út í garð en fuglinn fór út í gluggann við útvarpið og lenti þar í sjálfheldu. Vissi sjálfsagt ekki að þetta er einmitt uppáhaldsstaður kattarins. Sagnfræðingurinn náði síðan taki á fuglinum og sleppti honum út. Gunna Steina skammaði Sigurrósu hástöfun og sem fór lúpuleg niður tröppurnar aftur.
Skammastu þín Sigurrós. Hvað heldur þú að mamma þín í Ástralíu segi við svona uppátæki?
1 Comments:
Já, mamma er sko aldeilis ekki hress með þetta uppátæki hennar Rósu sinnar.
Sú fær að heyra það um jólin!
Skrifa ummæli
<< Home