Litli hvíti Hyundainn
Litli hvíti Hyundainn stendur sig vel. Hann var að vísu smá lasinn fyrir skemmstu. Fór ekki alltaf í gang til að byrja með en hætti síðan alveg við að fara í gang. Sagnfræðingurinn dæmdi hann ónýtan og var sannfærður um að það myndi kosta stórar fúlgur að gera við hann. Best væri að senda hann sömu leið og rauðu Súkkuna. Litli hvíti Hyundainn mátti þola það að standa út á plani í heilan mánuð og Gunna Steina hafði engan sér bíl. Sagnfræðingurinn lofaði að vísu að senda þann hvíta til læknis en svo varð hann svo kvefaður sjálfur að það varð bið á því. Gunna Steina linnti ekki látum fyrr en safnfræðingurinn lét til leiðast að draga litla Hvít á verkstæði niður í Hlíðartúni þar sem tveir gamlir kallar eru að dúlla sér á daginn. Gekk nú á ýmsu á leiðinni niður í Hlíðartún þegar Gunna Steina sat í Ventonum og dró sagnfræðinginn sem sat í litla hvíta Hyundainum. En það tókst þó. Gömlu kallarnir á verkstæðinu voru ekki svo vitlausir. Þeir fundu út hvað var að. Geymirinn var ónýtur. Annað var það ekki. Þeir áttu meira að segja ágætan notaðan geymi sem þeir settu í bílinn og tóku alls 10 þúsund fyrir geyminn og vinnuna.
Og nú hefur litli hvíti Hyundainn tekið gleði sína aftur og brunar um Mosfellsbæinn með Gunnu Steinu innanborðs. Hann ratar líka vel um bæinn. Alla vega niður í Ból og út í Snælands video að kaupa kúlusúkk, kók í dós og leigja spólu. Gott ef hann ratar ekki út á Subway að fá sér grænmetissælu í parmesan brauði. Kannski líka upp í Essosjoppu að kaupa skinkusamloku með grænmeti en sleppa skinkunni. Svo er alveg öruggt mál að hann ratar alla leið suður í Hlíðarsmára í Kópavogi að ná í gallajakka frá útlöndum.
2 Comments:
Hann er ábyggilega voða glaður að hann sé ekki lengur skilinn einn eftir á ókunnugum stöðum heilu sólarhringana, sbr. fyrir framan húsið hennar Röggu og fyrir framan hjá Brynju.
Passaðu þig bara á honum, hann reynir stundum að keyra mann upp í Smáralind gegn vilja manns.
Ég held að það sé allt í lagi þó að hann keyri mig í Smáralindina. Það væri bara sport. Ég myndi hvort sem er ekki eyða neinu.
Skrifa ummæli
<< Home