sunnudagur, október 30, 2005

Amma passar


Á laugardagskvöldið passaði Gunna Steina amma Viktor og Guðrúnu Jónu. Gömlu félagarnir í Mosó voru með matarboð heima hjá Einari lobba og frú. Amma mætti klukkan sex og gekk vel framan af. Þegar setjast átti að snæðingi og borða kjúkling sem þau hjónakornin í Krókabyggðinni höfðu eldað og gefa Guðrúnu Jónu að borða mauk úr krukku, var sú litla orðin nokkuð óhress og þurfti amma að beita ýmsum ráðum til að tjónka við henni. Endaði á því að leggja hana í rúmið og svaf hún smá stund meðan Viktor og amma kláruðu að borða. Hún vaknaði aftur eftir stundarfjórðung og meðan Spaugstofan var sýnd sat sú litla og borðaði cherrios og skemmti sér við að horfa á grínarana sýna ýmis gömul brot úr 20 ára sögu Spaugstofunnar. Þá var hún orðin þreytt aftur og tók aríu númer tvö en ömmu gömlu, sem ýmsu er vön eftir að hafa alið upp þrjá rollinga í Bugðutanganum, tókst fyrir rest að láta hana sofna með pelann sinn og Steina bangsa. Viktor og amma fóru því næst að púsla þangað til Viktor var orðinn frekar sybbinn og fór að hátta og sofa en það er heil serimonía út af fyrir sig. Viktor burstar sig með rafmagnstannbursta og hann sýndi ömmu hvernig hún átti að bursta tennurnar hans. Síðan tók hann inn eina töflu af vítamínos bambínos og sá sjálfur um að velja töfluna. Næst var að búa um rúmið og finna náttfötin. Auka koddi fyrir ömmu átti að vera við hliðina á hans kodda. Hann valdi síðan bók úr bókaskápnum sem amma las og var hún ekki búin að lesa margar blaðsíður þegar snáðinn var steinsofnaður. Þá settist amma Gunna Steina fram í stofu með litina sína og fór að teikna og leggja drög af næsta málverki.

laugardagur, október 29, 2005

Vetur í Bugðutanganum


Nú er kominn vetur í Bugðutangann. Það er búið að snjóa þó nokkuð. Þetta er fyrsti snjór vetursins og þess vegna er gósen tíð hjá hjólbarðaverkstæðunum. Hvorki Ventoinn eða Ponyinn eru komnir á neglda. Ponyinn fær því að hvíla sig þar til kemur þýða á miðvikudaginn. Sagnfræðingurinn lætur sig hafa það að þeysast um á Ventonum á sléttum dekkjum. En Gunna Steina prófaði í fyrsta skiptið í dag að fara í bæinn með nýrri leið númer 15. Það var bara mjög þægileg ferð. Hún skrapp niður í Básenda að skoða nýja húsið hjá Hans og Helgu. Hans var á fullu að rífa inn úr efri hæðinni og henda út. Þar ætla þau að breyta herbergja skipan. Á miðhæð eru stofur, eldhús, gestaklósett og þvottahús. Niðri er stór 3ja herbergja íbúð. Myndir á myndasíðu.

fimmtudagur, október 20, 2005

Amma og afi á Flókó til Kanarí


Amma og afi á Flókó fóru í morgun til Kanaríeyja en þar munu þau verða næstu fjórar vikurnar. Gunna Steina brunaði með þau suður til Keflavíkur. Þar hittu þau vini sína sem verið hafa með þeim á Kanarí mörg undanfarin ár. Vonandi eiga amma og afi eftir að hafa það gott þarna suður frá í þetta sinn. Þó að síðasta ferð hafi ekki verið skemmtileg vegna þess að amma varð alvarlega veik og lenti á sjúkrahúsi þá er ekki þar með sagt að sú saga endurtaki sig. Vonandi koma þau brún og sælleg aftur tilbaka seinni partinn í nóvember

miðvikudagur, október 12, 2005

Litli hvíti Hyundainn


Litli hvíti Hyundainn stendur sig vel. Hann var að vísu smá lasinn fyrir skemmstu. Fór ekki alltaf í gang til að byrja með en hætti síðan alveg við að fara í gang. Sagnfræðingurinn dæmdi hann ónýtan og var sannfærður um að það myndi kosta stórar fúlgur að gera við hann. Best væri að senda hann sömu leið og rauðu Súkkuna. Litli hvíti Hyundainn mátti þola það að standa út á plani í heilan mánuð og Gunna Steina hafði engan sér bíl. Sagnfræðingurinn lofaði að vísu að senda þann hvíta til læknis en svo varð hann svo kvefaður sjálfur að það varð bið á því. Gunna Steina linnti ekki látum fyrr en safnfræðingurinn lét til leiðast að draga litla Hvít á verkstæði niður í Hlíðartúni þar sem tveir gamlir kallar eru að dúlla sér á daginn. Gekk nú á ýmsu á leiðinni niður í Hlíðartún þegar Gunna Steina sat í Ventonum og dró sagnfræðinginn sem sat í litla hvíta Hyundainum. En það tókst þó. Gömlu kallarnir á verkstæðinu voru ekki svo vitlausir. Þeir fundu út hvað var að. Geymirinn var ónýtur. Annað var það ekki. Þeir áttu meira að segja ágætan notaðan geymi sem þeir settu í bílinn og tóku alls 10 þúsund fyrir geyminn og vinnuna.
Og nú hefur litli hvíti Hyundainn tekið gleði sína aftur og brunar um Mosfellsbæinn með Gunnu Steinu innanborðs. Hann ratar líka vel um bæinn. Alla vega niður í Ból og út í Snælands video að kaupa kúlusúkk, kók í dós og leigja spólu. Gott ef hann ratar ekki út á Subway að fá sér grænmetissælu í parmesan brauði. Kannski líka upp í Essosjoppu að kaupa skinkusamloku með grænmeti en sleppa skinkunni. Svo er alveg öruggt mál að hann ratar alla leið suður í Hlíðarsmára í Kópavogi að ná í gallajakka frá útlöndum.

mánudagur, október 10, 2005

Á Snæfellsnesi


Á fimmtudag lagði Gunna Steina land undir fót við þriðja mann og var ferðinni heitið til Ólafsvíkur á fund launafulltrúa. Gist var á Hótel Ólafsvík í mjög huggulegum herbergjum. Þessi ferð var ánægjuleg og fróðleg í alla staði. Þarna báru launafulltrúar saman bækur sínar, styrktu samböndin sín á milli og hlustuðu á fræðsluerindi um lífeyrissjóðsmál og fleira. Farin var skoðunarferð um Ólafsvík, Rif og til Hellisands með bæjarstjóra Snæfellsbæjar sem var hinn skemmtilegasti og fyndnasti fararstjóri. Einnig var farin skoðunarferð fyrir jökul í fylgd með þjóðgarðsverðinum. Keyrt var niður á Djúpalónssand við Dritvík þar sem brimið var tignarlegt. Þá rifjaðist upp kvæði Jóns Helgasonar:

Nú er í Dritvík daufleg vist
drungalegt nesið kalda.
Sjást ekki lengur seglin hvít
sjóndeildarhringinn tjalda.
Tröllakirkjunnar tíðasöng
tóna þau Hlér og Alda.
Fullsterk mun þungt að færa á stall.
Fáir sem honum valda.

Áfram var haldið fyrir nesið og næst var stoppað á Hellnum þar sem hafnarstjóri Snæfellsbæjar tók á mótin hópnum og sagði frá hafnarframkvæmdum á staðnum og bauð síðan upp á léttar veitingar á Arnarstapa. Síðan lá leiðin yfir Fróðarárheiði aftur til Ólafsvíkur eftir að hafa keyrt umhverfis Snæfellsjökul. Um kvöldið var borðaður góður kvöldverður á hótelinu. Það var fallegt veður á Ólafsvík þessa daga. Farið að kólna í veðri og þó nokkur snjór í fjöllum.

sunnudagur, október 09, 2005

Svínarif með eftirmálum.


Í dag fóru Gunna Steina og sagnfræðingurinn út að borða í tilefni dagsins. Gunna Steina ákvað að leyfa sagnfræðingnum að fá uppáhaldsmatinn sinn að borða. Henni fannst ekki veita að hressa hann örlítið við. Þess vegna var Ruby Tuesday fyrir valinu en þar var einmitt á boðstólum matur sem sagnfræðingnum hafði lengi dreymt um: svínarif amerikan stæl. Það er skemmst frá því að segja að sagnfræðingurinn fékk vænan skammt af svínarifjum og tilbehör svo ekki sé meira sagt sem hann lét ekki eftir sér liggja að sporðrenna. Hins vegar brá svo við að svínarifin fóru ekki vel í maga og var sagnfræðingnum ómótt það sem eftir lifði dagsins. Var það svo slæmt að honum fannst ástæða til að hringja í Ruby Tuesday og kvarta yfir matseldinni og þá er mikið sagt. Fékk hann samband við kokkinn sem skýrði út eldamennskuna. Samkvæmt matseðlinum eru þetta: “Bestu rifin í bænum! Elduð af mikilli alúð og smurð með alvöru Ruby Tuesday BBQ-sósu.” Samkvæmt upplýsingum kokksins eru svínarifin elduð og síðan geymd þar til viðskiptavinurinn birtist. Þá eru þau hituð upp og mökuð í BBQ sósu. Stór skammtur er seldur á 2.500 krónur sem lúxus fæða. Gunna Steina pantaði sér hamborgara sem var hálf hálfhrár. Það er óhætt að segja að ef þau Gunna Steina og sagnfræðingurinn eiga eftir að fara út að borða í framtíðinni mun veitingastaðinn Ruby Tuesday ekki verða fyrir valinu.

þriðjudagur, október 04, 2005

Skammastu þín Sigurrós!


Í gærmorgun hringdi síminn í Bugðutanganum fyrir allar aldir. Það var andfætlingurinn í fjölskyldunni sem var á hinum enda línunnar og sat við síðdegiskaffidrykkju að áliðnum degi hinum megin á hnettinum. Gunna Steina snaraðist fram úr rúminu til að svara símanum hálf vönkuð og með hjartslátt. Erindið var að redda ýmsum málum fyrir andfætlinginn sem umboðsmaður hans hér á landi. Var það að venju auðsótt mál. Að símtalinu loknu hugðist Gunna Steina ganga inn í eldhús til að athuga hvað klukkan væri og rak þá tærnar í mjúkan svartan hlut sem lá á miðjum gangveginum. Þetta var dauður músaungi. Það bjargaði málinu að Gunna Steina var ekki með gleraugun og fókusinn ekki alveg í lagi þarna í rökkrinu á ganginum. Þess vegna slapp hún við að sjá dýrið mjög náið. Sagnfræðingurinn kom síðan fram, náði í plastpoka og gerði veiðina upptæka hjá kettinum. Það er óhætt að segja að ungfrú Sigurrósu var blótað í sand og ösku þarna í morgunsárið.
Sigurrós hefur verið að færa sig töluvert upp á skaftið undanfarið og verið að draga björg í bú sem heimilisfólkið í Bugðutanganum hefur ekki kunnað að meta. Tvo dauða fugla hefur hún komið með inn og einn lifandi. Gunna Steina hefur sjálfsagt sjaldan öskrað jafn hátt og þegar kötturinn kom með þennan lifandi. Allt í einu kom fugl fljúgandi á harða kani upp úr kjallaranum og inn í stofu og Sigurrós um leið á stökki upp tröppurnar. Gunna Steina hljóp og opnaði hurðina út í garð en fuglinn fór út í gluggann við útvarpið og lenti þar í sjálfheldu. Vissi sjálfsagt ekki að þetta er einmitt uppáhaldsstaður kattarins. Sagnfræðingurinn náði síðan taki á fuglinum og sleppti honum út. Gunna Steina skammaði Sigurrósu hástöfun og sem fór lúpuleg niður tröppurnar aftur.
Skammastu þín Sigurrós. Hvað heldur þú að mamma þín í Ástralíu segi við svona uppátæki?