Amma passar
Á laugardagskvöldið passaði Gunna Steina amma Viktor og Guðrúnu Jónu. Gömlu félagarnir í Mosó voru með matarboð heima hjá Einari lobba og frú. Amma mætti klukkan sex og gekk vel framan af. Þegar setjast átti að snæðingi og borða kjúkling sem þau hjónakornin í Krókabyggðinni höfðu eldað og gefa Guðrúnu Jónu að borða mauk úr krukku, var sú litla orðin nokkuð óhress og þurfti amma að beita ýmsum ráðum til að tjónka við henni. Endaði á því að leggja hana í rúmið og svaf hún smá stund meðan Viktor og amma kláruðu að borða. Hún vaknaði aftur eftir stundarfjórðung og meðan Spaugstofan var sýnd sat sú litla og borðaði cherrios og skemmti sér við að horfa á grínarana sýna ýmis gömul brot úr 20 ára sögu Spaugstofunnar. Þá var hún orðin þreytt aftur og tók aríu númer tvö en ömmu gömlu, sem ýmsu er vön eftir að hafa alið upp þrjá rollinga í Bugðutanganum, tókst fyrir rest að láta hana sofna með pelann sinn og Steina bangsa. Viktor og amma fóru því næst að púsla þangað til Viktor var orðinn frekar sybbinn og fór að hátta og sofa en það er heil serimonía út af fyrir sig. Viktor burstar sig með rafmagnstannbursta og hann sýndi ömmu hvernig hún átti að bursta tennurnar hans. Síðan tók hann inn eina töflu af vítamínos bambínos og sá sjálfur um að velja töfluna. Næst var að búa um rúmið og finna náttfötin. Auka koddi fyrir ömmu átti að vera við hliðina á hans kodda. Hann valdi síðan bók úr bókaskápnum sem amma las og var hún ekki búin að lesa margar blaðsíður þegar snáðinn var steinsofnaður. Þá settist amma Gunna Steina fram í stofu með litina sína og fór að teikna og leggja drög af næsta málverki.