laugardagur, júlí 30, 2005

Innipúkar


Þeir Steini og Friggi ætla ekki að fara neitt um verslunarmannahelgina. Þeir eru innipúkar. En það er líka hægt að halda Þjóðhátíð heima á pallinum í Bugðutanganum. Þangað mætti Steini með gítarinn og Friggi með bjór og snakk og þarna voru tekin góðu gömlu þjóðhátíðar og eyjalögin með stæl.
Steini sér að vísu eitt gott við þessa heimatilbúnu útihátíð að Friggi er búin að lofa honum að fara með hann eitthvert upp til dala um helgina og leyfa honum að prófa að keyra. Löggan hefur í nógu að snúast um þessar mundir og er ekki að fylgjast með slíkum smámunum enda vita sjálfsagt aðeins Sturla og Helga hvar æfingaaksturinn mun fara fram. Það má líka vel vera að Gunna Steina drífi hann með í veiði í eitthvert nærliggjandi vatnið. Þó tæplega Hafravatn. Þar er nú varla bröndu að finna.

föstudagur, júlí 29, 2005

Kóngulærnar komnar á kreik



Nú er eins gott að Helga er farin langt í burtu vegna þess að nú er kóngulóatíminn kominn. Þessi miður fallegu en ljóngáfuðu skordýr eru búin að spinna vefi þvers og kurs bæði götumegin og garðmegin heima í Bugðutanganum. Hvíta fjúkið úr stóru öspunum er búið að breiðast um allt og festast í kóngulóavefjum og gera þá sýnilega. Ég var að hugsa um að taka garðslönguna og sprauta á þennan ófögnuð en bæði afi Olli og afi Steini sögðu: "Æ, leyfðu þessum greyjum að vera. Sérðu hvað þau eru búin að spinna ótrúlega flotta vefi".
En ég er nú að velta fyrir mér hvort það séu ekki líka kóngulær í Ástralíu!

laugardagur, júlí 23, 2005

Nýtt look!




Steini ákvað að láta verða að því að breyta háralitnum. Hann var líka búinn að fá útborgað og hafði því efni á uppátækinu. Hársnyrtikonurnar á Pílus voru ekki mjög hressar með verkefnið en létu sig hafa það og tóku þetta í tveimur áföngum með tveggja daga milibili. Eftir fyrri áfangann var hárið smávegis gult en eftir seinni áfangann var það orðið grátt eins og að var stemmt. Ingibjörg eigandi Pílus jánkaði því aðspurð að þetta væri óvenjulegt verkefni. Algengara er að hún fái kúnna sem óska eftir að láta lita gráu hárin. En þetta tókst vonum framar og Steini er ánægður með útkomuna. Sagnfræðingurinn saup hveljur yfir eyðslunni og fussaði smávegis og sveiaði að vana.
Það er annað af Steina að frétta að hann tók þátt í söngkeppninni Vinnuskóla´dól 2005 sem Landsbankinn stóð fyrir í sumar. Keppnin fór fram í Bólinu fyrir skemmstu og mættu aðkomumenn á staðinn með kammeru. Samkvæmt auglýsingu þá var afraksturinn tekinn upp og fluttur á FM 957 og sýndur á Popptíví. Popptíví mun hins vegar vera hætt útsendingunum. Aðeins tíu Mosfellingar lögðu í að taka þátt og sungu vinnuskólalagið og var Steini í þeirra hópi. Honum gekk "ekkert svo vel" að eigin sögn en það var alla vega áskorun fyrir hann sjálfan að taka þátt og fær hann hrós í hnappagatið fyrir viðleitnina. Gangi honum bara betur næst!

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Breytt herbergi


Búið er að breyta herberginu sem stjórnmálafræðingurinn bjó í um nokkra mánaða skeið. Þar er Gunna Steina búin að hreiðra um sig og koma sér upp ágætis skrifstofuaðstöðu og færir sér í nyt húsgögnin og tölvu sem skilin voru eftir í hennar umsjón. Hægt er að sjá fleiri myndir á myndasíðunni. Sjá slóð hér til hliðar.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Nýi strákurinn í Krókabyggðinni






Nýji strákurinn í Krókabyggðinni heitir Viktor Elí. Nýja sérherbergið hans er mjög flott. Fyrir ofan rúmið hans stendur nafnið hans og á einum veggnum er stór mynd af pálmatré, apa, skrítnum fugli og tígrísdýri. Hann er búinn að eignast vini í Krókabyggðinni og er stundum að leika við þá. Hann biður að heilsa Helgu.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Nýja klósettið


Það er komið nýtt klósett í Bugðutangann. Það er skjannahvítt og stingur óneitanega í stúf við beisaða baðkerið og vaskinn. En þetta er nóg í bili fyrir sagnfræðinginn. Það verður að leyfa honum að slappa aðeins af áður en þrýst verður á meiri framkvæmdir. Uppsetningin gekk líka mjög illa. Hann fékk afhent rangt klósett en rétta setu. Það var ómögulegt að láta réttu setuna passa á ranga klósettið. Hann fékk því nýja setu. Það tókst að festa hana en hún var laflaus og var öll á iði þegar setið var á henni. Sagnfræðingurinn fór því á nýjan leik niður í Húsasmiðju og fékk þriðju setuna, sem var rétt seta á ranga klósettið og eina setan sem passaði á það. Einar pípari sagði sagnfræðingnum í heita pottinum að það væri svo mikið af krökkum, sem ekkert vita, að afgreiða í Húsasmiðjunni.

sunnudagur, júlí 10, 2005

Sturla og Auður flutt.






Sturla, Auður, Viktor Elí og Guðrún Jóna fluttu í gær í Krókabyggðina. Ég var að hjálpa þeim fram eftir degi við að þrífa en það var sag út um allt eftir parketlögnina og hurðaísetinguna. Þau fóru síðan niður í Hlíðargerði og klukkan 5 kom sendiferðabíllin. Þá voru Friðrik og Steini komnir þangað að hjálpa til. Það gekk vel að bera dótið inn í Krókabyggðina en amma passaði Guðrúnu Jónu á meðan. Nú er að verða heimilislegt hjá nýju fjölskyldunni í Krókabyggðinni.

Nýir tímar

Áður fyrr voru skrifuð sendibréf manna á milli. Það var spennandi að bíða eftir póstinum og vita hvort hann kæmi með bréf. Síðan settist maður niður og svaraði hverjum og einum. Bréfin sem maður skrifaði voru ekki eins. Það var ekki sama hver átti að fá bréfið. Bréf til afa og ömmu voru settlegri en til vinanna. En nú eru nýir tímar. Fólk nennir ekki að skrifa mörg bréf. Það nennir aðeins að skrifa eitt bréf og bréfið er ekki einu sinni póstlagt. Það er sett á Netið þar sem hver sem áhuga hefur getur lesið það. Ég ætla því að fylgja nútímanum og skrifa bréfin mín á Netið.