laugardagur, maí 26, 2007

Með strætó upp á Akranes


Vinkonurnar af Laufásveginum og Bergstaðastrætinu, sem haldið hafa hópinn frá því skömmu upp úr miðri síðustu öld, tóku sér far með strætó upp á Akranes á fimmtudaginn var. Þær mundu vel þá tíð þegar "Allir fóru með strætó og enginn með Steindóri......" og þegar það þótti kurteisi og sjálfsagður hlutur að standa upp fyrir fullorðnum í strætó.

Á Akranesi var kíkt í búðir og í versluninni Nínu þar sem Dorrit ku versla var mikið mátað og gerðu vinkonurnar mis mikil kaup. Sumar ekkert en aðrar ansi mikið. Sumar drífðu sig í Skrúðgarðinn á undan hinum og fengu sér bjór og kaffi. En ekki var þeim lengi til setunnar boðið því þær áttu pantað borð á veitingastaðnum Galito. Þar var snæddur góður matur og spjallað saman þar til síðasti vagninn í Mosó fór frá Akranesi um hálf tíu.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Góður hópur

Það var góður hópur sem fór í góða, vel heppnaða ferð til Glasgow 17. maí til 20. maí.

laugardagur, maí 19, 2007

Í ráðhúsi Glasgowborgar



Þó svo að það hafi verið nauðsynlegur og ómissandi þáttur Skotlandsferðarinnar að kíkja í búðir og versla þá var það samt ekki aðalerindi okkar þangað. Ferðin var líka náms- og kynnisferð og á föstudagsmorgun áttum við heimboð í Ráðhús Glasgowborgar. Ráðhúsið er stórglæsileg bygging frá 1898 og eru stigagangar og salarkynni með útskornum marmara í hólf og gólf og þar er hátt til lofts og vítt til veggja. Á veggjum ganganna eru málverk meðal annars af fyrrverandi borgarstjórum. Innréttingar eru í gamaldags breskum stíl og er óhætt að segja að þarna svífur andi gamals tíma yfir vötnum.
Í anddyri ráðhússins tók á móti okkur tengiliðurinn Charlie Palmer og leiddi okkur um sali byggingarinnar og síðan inn í sjarmerandi gamaldags fundarherbergi. Stór arinn var á einum veggnum en á hinum veggjunum voru háir útskornir bókaskápar. Þarna biðu okkar tvær konur sem bera ábyrgð á ákveðnum málaflokkum hjá Glasgowborg. Þær fluttu fyrir okkur fróðleg erindi. Önnur þeirra fræddi okkur um innleiðingu rafrænnar þjónustu og upplýsingamiðlunar hjá Glasgowborg og tölvuver sem komið hefur verið á fót á nokkrum stöðum í borginni fyrir hinn almenna borgara til að auðvelda honum að nýta sér þjónustuna. Hin konan, Doreen Montgomery, sagði okkur frá stjórnmálum og uppbyggingu stjórnssýslu í Skotlandi og Glasgow og stefnumótun á því sviði. Ekki komu Mosfellingar tómhentir í heimsóknina og drógu upp úr pússi sínu ýmsan varning svo sem penna, lyklakippur, göngukort og upplýsingabæklinga um Mosfellsbæ sem gestgjöfunum voru færðar að gjöf. Það stóð ekki á Glagsgowfólki að gera slíkt hið sama og voru gestirnir leystir út með pennum merktum borginni. Skotarnir voru tilbúnir með sérstaka gjöf fyrir bæjarstjórann, rauðköflótt slifsi í skoskum stíl. Þeir hlupu þó og sóttu rauða slæðu þegar þeim varð ljóst að bæjarstjórinn í Mosfellsbæ væri kona. Ragnheiður mátti þó eiga slifsið fyrir sinn ektamaka.

fimmtudagur, maí 17, 2007

Í Glasgow




Það er ótrúlegt hvað það tekur stuttan tíma að fljúga frá Keflavík til Glasgow. Aðeins 1 tíma og 50 mínútur. Það er varla að flugliðarnir nái prógramminu; bera fram mat, kaffi og drykki og selja vörur. Meira mál er að vakna klukkan þrjú um nótt til þess að vera kominn í tæka tíð suður í Leifsstöð og hafa smá tíma til að slappa af í fríhöfninni og komast í smá "fíling".
Eldsnemma í morgun lögðum við leið okkar til Glasgow í kynnis- og námsferð hópur samstarfsfólks á bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar. Til borgarinnar vorum við komin fyrir hádegi. Við búum á góðu Holiday Inn hóteli sem er miðsvæðis. Herbergin voru ekki tilbúin þegar við komum enda var enn ekki komið hádegi. Við röltuðum því um miðbæinn og fyrsta stoppið var á kránni The Gallery í Bucananstræti. Þar fengum við okkur smá hressingu. En síðan var ekki til setunnar boðið því búðirnar biðu og lá á að kynnast varningi þeirra og verði sem fyrst því tíminn skyldi nýttur til hins ýtrasta. Hópurinn tvístraðist en tveimur tímum seinna, þegar herbergin voru tilbúin, var mætt á hótelið aftur og var þá könnuð staða mála. Sumir voru tómhentir en aðrir hlaðnir pokum. Úttekt var gerð hjá þeim sem verslað höfðu og tekin skýrsla. Voru allir sammála um að þarna höfðu verið gerð kjarakaup.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Sama brosið!


Það er ekki laust við að Orri sé örlítið líkur Sturlu móðurbróður sínum. Brosið er alla vega ekki ósvipað og á þessari mynd af Sturlu fimm ára.

sunnudagur, maí 06, 2007

Rúna


Rúna kom í heimsókn til afa og ömmu í gær með pabba sínum. Þau voru búin að vera að sjá hestana og labba meðfram Varmánni. Mamma var að læra fyrir próf eins og amma en Viktor var í bænum hjá afa og ömmu í Reykjavík. Rúna klappaði Sigurrósu, hlustaði á "Ryksugan á fullu" og "Það vantar spýtur," og skoðaði nýjustu myndirnar af Orra frænda sínum.

fimmtudagur, maí 03, 2007

Hvar eru Klettarnir?




Einu sinni voru til Klettar sem krakkarnir léku sér í. Nú eru þeir ekki lengur til og álfarnir, sem þar bjuggu , eru fluttir í burtu. Það er búið að sprengja, grafa, byggja og malbika. Aðeins örfáir steinar eru efir. En þarna á gamla fólkið heima og þarna eru börnin á daginn og una hag sínum vel.

miðvikudagur, maí 02, 2007

Mosfellsbær stækkar



Það er mikil uppbygging í Mosfellsbæ um þessar mundir. Heilu hverfin rísa upp á örskoti upp um allar hlíðar, tún og tungur. Bærinn hefur tekið miklum breytingum og þeir, sem ekki hafa komið á heimaslóðir í meira en ár, þekkja sig varla lengur. Hér má sjá nýja Krikahverfið sem er í byggingu í hlíðum Lágafells á móts við Teigahverfið og nýja Krónu verslunarhúsið ská á móti Snælandi þar sem blómabúð Hlínar og fleiri verslanir eru og þangað sem bakaríið ætlar að flytja