Í ráðhúsi Glasgowborgar
Þó svo að það hafi verið nauðsynlegur og ómissandi þáttur Skotlandsferðarinnar að kíkja í búðir og versla þá var það samt ekki aðalerindi okkar þangað. Ferðin var líka náms- og kynnisferð og á föstudagsmorgun áttum við heimboð í Ráðhús Glasgowborgar. Ráðhúsið er stórglæsileg bygging frá 1898 og eru stigagangar og salarkynni með útskornum marmara í hólf og gólf og þar er hátt til lofts og vítt til veggja. Á veggjum ganganna eru málverk meðal annars af fyrrverandi borgarstjórum. Innréttingar eru í gamaldags breskum stíl og er óhætt að segja að þarna svífur andi gamals tíma yfir vötnum.
Í anddyri ráðhússins tók á móti okkur tengiliðurinn Charlie Palmer og leiddi okkur um sali byggingarinnar og síðan inn í sjarmerandi gamaldags fundarherbergi. Stór arinn var á einum veggnum en á hinum veggjunum voru háir útskornir bókaskápar. Þarna biðu okkar tvær konur sem bera ábyrgð á ákveðnum málaflokkum hjá Glasgowborg. Þær fluttu fyrir okkur fróðleg erindi. Önnur þeirra fræddi okkur um innleiðingu rafrænnar þjónustu og upplýsingamiðlunar hjá Glasgowborg og tölvuver sem komið hefur verið á fót á nokkrum stöðum í borginni fyrir hinn almenna borgara til að auðvelda honum að nýta sér þjónustuna. Hin konan, Doreen Montgomery, sagði okkur frá stjórnmálum og uppbyggingu stjórnssýslu í Skotlandi og Glasgow og stefnumótun á því sviði. Ekki komu Mosfellingar tómhentir í heimsóknina og drógu upp úr pússi sínu ýmsan varning svo sem penna, lyklakippur, göngukort og upplýsingabæklinga um Mosfellsbæ sem gestgjöfunum voru færðar að gjöf. Það stóð ekki á Glagsgowfólki að gera slíkt hið sama og voru gestirnir leystir út með pennum merktum borginni. Skotarnir voru tilbúnir með sérstaka gjöf fyrir bæjarstjórann, rauðköflótt slifsi í skoskum stíl. Þeir hlupu þó og sóttu rauða slæðu þegar þeim varð ljóst að bæjarstjórinn í Mosfellsbæ væri kona. Ragnheiður mátti þó eiga slifsið fyrir sinn ektamaka.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home