laugardagur, maí 20, 2006

Lopapeysur



Það er nóg að gera hjá Gunnu Steinu í prjónaskapnum. Það liggja fyrir nokkrar pantanir enda eru lopapeysur vinsælar um þessar mundir. Gunna Steina situr því og prjónar hvenær sem færi gefst. Eins og stendur er hún að prjóna lopapeysu sem á eftir að ferðast yfir hálfan hnöttinn. Hér á myndinni á sjá hve vel þeirri peysu miðar og sjálfsagt verður hún lögð af stað til Gallipoli áður en langt um líður.

þriðjudagur, maí 09, 2006

Jói og Jói Dóri



Í gær flutti inn í Krókabyggðina ungur maður að nafni Jóhann Halldór Jóhannsson. Jóhann Halldór, sem er kallaður Jói Dóri, er lifandi eftirmynd föður síns. Hann er aðeins stærri og er með blá augu en Jói pabbi hans er með brún augu. Jói er orðinn ansi slitinn og lélegur enda kominn nokkuð til ára sinna. En þeir feðgar eru í miklu uppáhaldi hjá systkinunum í Krókabyggðinni ekki síst Guðrúnu Jónu. Jói fylgdi syni sínum í þangað í gærkvöldi og heilsaði upp á fjölskylduna og fékk sér kaffisopa og kleinu.

mánudagur, maí 08, 2006

Þá kom lítið kisugrey sem vildi komast inn!



Hún Sigurrós er ótrúleg. Hún er alltaf að fara út en svo vill hún komast inn aftur. Gott væri að hafa kattalúgu með strikamerki þannig að hún kæmist sjálf inn þegar hún vill, en ekki annar köttur, en ótrúlegt er að sagnfræðingurinn myndi samþykkja slíkar framkvæmdir eða skemmdir á útidyrahurðum fyrir einn kött. En hún Sigurrós kann að bjarga sér. Þegar hún vill komast inn þá teygir hún sig upp í gluggann á garðhurðinni. Gæist inn, klórar og mjálmar. Eða þá að hún stekkur upp á handriðið við útidyrahurðina og kíkir inn um gluggann á litla herberginu og athugar hvort þar sér einhver sem hleypir henni inn. Yfirleitt þarf hún ekki að bíða lengi og hún er mjög ánægð með þjónustuna.
En hún er samt pínu svekkt út af einu. Hún var að skoða bloggsíðuna hennar Helgu og sá myndina af fjölskyldumyndatöflunni á eldhúsveggnum. Það er engin mynd af henni þar.....

miðvikudagur, maí 03, 2006

Stór dagur


Í dag var stór dagur hjá ungfrú Guðrúnu Jónu Sturludóttur. Hún stóð í fyrsta skipti ein. Hún bæði reisti sig upp úti á gólfi og sleppti líka takinu þar sem hún stóð upp við. Henni fannst þetta mjög gaman og smá fyndið eins og sést á myndinni. Svo var hún líka dálítið montin enda fékk hún mikla athygli.

mánudagur, maí 01, 2006

Í verkamannavinnu 1. maí.



Í dag, á hátíðardegi verkalýðsins, hringdi Sturla í bróður sinn snemma morguns, á Steina mælikvarða, og plataði hann til að koma til sín í Krókabyggðina að grafa holur. Þó að Steini sitji þessa dagana "sveittur við prófalestur" gaf hann sér tíma til þess að halda upp á daginn á þennan máta. Þeir bræður hömuðust við moksturinn og gekk svo mikið á að ein skóflan brotnaði. Veðrið var mjög breytilegt. Glaða sólskin og grenjandi rigning til skiptis. Tilgangurinn með mokstrinum er sá að Sturla og Auður ætla að fara að smíða timburvegg út við götuna sem væntanlega verður risinn í lok vikunnar.