laugardagur, september 24, 2005

Steini með dökka hárið.


Steini ákvað að verða aftur hann sjálfur. Enda er hann miklu sætari þannig. Gunnu Steina grunar að ákveðnar dömur í gagnfræðaskólanum hafi jafnvel stungið því að honum að það færi honum betur að vera dökkhærður. En það er líka allt í lagi að breyta til og prófa eitthvað annað en menn mega líka skipta um skoðun. Af Steina er annars það að frétta að hann er kominn í rafgítarnám í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar og heitir kennari hans Andrés. Hann er líka einu sinni í viku í tónfræði. Gunna Steina keypti fyrir hann á netinu tónlistarforrit sem Steini fann sjálfur. Hann getur samið lög með þessu forriti og það er uppáhaldstónstundaiðja hans um þessar mundir og er hann búinn að semja fullt af lögum. Hver veit nema eitthvert þeirra eigi eftir að heyrast einhvern tímann í Músiktilraunum!

sunnudagur, september 18, 2005

Sunudagskaffi í Bugðutanganum


Í dag komu Snorri, Rósa og stelpurnar í heimsókn. Sturla, Auður, Viktor og Guðrún Jóna komu líka. Boðið var upp á vöflur, vínarbrauð, brauð og osta og Auður kom með brauðrétt úr afmæli Viktors. Mikið fjör var hjá krökkunum. Nokkrir slappir geitungar höfðu villst inn í húsið og þurfti að koma þeim út. Sigurrós var á vappi en var vör um sig þegar krakkarnir vildu við hana tala. Gömlu leikföngin voru dregin fram og Rúnu litlu fannst mjög gaman að láta dýrin poppa upp. Snorri og Rósa fóru svo að skoða húsið í Krókabyggðinni en þau höfðu ekki komið þangað áður.

föstudagur, september 16, 2005

Gönguferð í Leirvogstungu


Föstudaginn 9. september bauð Ragnheiður Ríkharðsdóttir starfsmönnum á bæjarskrifstofum og bókasafni í gönguferð um bæinn og síðan heim til sín í Leirvogstungu. Þennan dag var búin að vera grenjandi rigning en meðan á gönguferðinni stóð var hæglætisveður og engin rigning. Þó voru göngumenn undir allt búnir í pollagöllum og vel skóaðir flestir. Fyrst var gengin sem leið liggur frá Kjarna og upp brekkuna bak við Búnaðarbankann og litið á leifar hitaveitustokksins sem eitt sinn lá þarna. Þar næst var gengið upp að dvalarheimilinu og niður á Langatanga og sagði bæjarstjóri frá fyrirhuguðum byggingum fyrir eldri borgara á auða svæðinu vestan við Leikskólann Hlíð. Síðan var haldið áfram niður Langatanga og að Álfatanga og þaðan niður eftir fram hjá bílskúrunum við Arnartanga. Inn í einum þeirra var hljómsveit að æfa og bankaði bæjarstjóri á dyrnar og óskaði eftir einu lagi en hljómlistarmennirnir voru feymnir og tóku ekki áskoruninni. Áfram var haldið niður stíginn í gegnum skóginn fyrir neðan Ásholt og í gegnum hesthúsahverfið. Við Skiphól var áð og bauð bæjarstjóri upp á eplasnaps. Síðan var farið yfir Köldukvísl og gengið upp eftir meðfram henni. Skoðaður var fossinn sem er svo vinsæll af unga fólkinu í Mosfellsbæ. Áfram var haldið fram hjá Kíwanishúsinu og sem leið liggur heim til Ragnheiðar. Á leiðinni skýrði hún út fyrirhugað byggingasvæði á Leirvogstungusvæðinu en þar er gert ráð fyrir að rísi 400 íbúða byggð á næstu 4 árum.
Heima í Leirvogstungu beið Daði eiginmaður Ragheiðar eftir hópnum með heita gúllassúpu sem bæjarstjórinn hafði eldað nóttina áður eftir að hún kom frá fundi á Selfossi. Súpan smakkaðist mjög vel ásamt brauði, skinku, ostum og pestó að ógleymdu rauðvíni og hvítvíni. Kvöldið leið fljótt enda var mjög gaman. Spilað á píanó og mikið sungið og allir skemmtu sér mjög vel.

laugardagur, september 10, 2005

Haust í Bugðutanganum


Það er komið haust í Bugðutanganum. Gljámispillinn er orðinn hárauður og fallegur. Það er samt ekki orðið neitt kalt enda hefur rignt mikið. Í garðinum hefur ripsið sprottið ótrúlega mikið og vínbóndinn er búinn að tína heil óskup og er farinn að leggja í ripsberjavín. Samt er enn hellingur eftir á trjánum. Stiklisberjarunninn svignaði undan stikilsberjunum en Gunna Steina er búin að tína um 4 kíló af honum. Inge mun fá megnið af þeim eins og fyrri ár. Geir fannst stikilsberjagrautur mjög góður en nú getur hún ekki eldað graut fyrir hann meira. En hún sagði samt á fimmtudaginn að hún vildi miklu frekar fá stikilsber heldur en blóm þannig að Gunna Steina á eftir að fara með berin til hennar við tækifæri. Það er táknrænt að í síðasta skipti sem Gunna Steina sá Geir á lífi var einmitt við stikilsberjarunnann sem snýr út að húsinu hennar Mörtu á móti en þangað voru þau Inge að fara í mat viku áður en Geir dó.

Allir dagar í Kjarna verða “flöskudagar”


Ríkið í Mosó er að færa sig um set yfir götuna. Mánudaginn 12. september opnar hin nýja stór glæsilega verslun ÁTVR við hliðina á Bónus á neðstu hæðinni í Kjarna. Undanfarnar vikur hafa iðnaðarmenn verið sveittir við að innrétta nýju verslunina og nú síðustu daga hafa viðskiptamenn Bónus og Bónusvídeó heyrt sérkennilegan flöskuglamur þegar þeir hafa átt leið fram hjá plássinu næst rúllustiganum þar sem Ótrúlegabúðin var eitt sinn til húsa. Ástæðan fyrir þessu hljóði er sú að sveit manna hefur unnið hörðum höndum við að raða flöskum í hillur. Nú er allt að verða klárt fyrir opnunina. Starfsmenn á Bæjarskrifstofunum hafa beðið spenntir eftir því að verða boðnir í opnunargillið en hafa nú gefið upp vonina að eitthvað slíkt verði á döfinni. Sjálfsagt opnar búðin bara á tilsettum tíma án nokkurrar veislu. Þó er hugsanlegt að fyrsti viðskiptavinurinn fái einhver verðlaun. Þess vegna gæti verið klókt að standa í startholunum kl. 14 á mánudaginn þegar verslunin opnar og vera tilbúinn að krækja sér í svo sem eina kippu af bjór og eina hvítvínsflösku og athuga hvort varningurinn fæst ókeypis.

mánudagur, september 05, 2005

Í Munaðarnesi

Alltaf er nú indælt í Munaðarnesi. Sérstaklega þegar veðrið er gott. Gunna Steina, sagnfræðingurinn og Steini skelltu sér þangað um helgina. Sigurrós var home alone en Sturla og Auður litu við hjá henni og gáfu henni að borða. Steini fór með rafmagnsgítarinn og magnarann með sér og spilaði á fullu. Það voru svo fáir í Munaðarnesi um helgina að það gerði lítið til þó að það heyrðist smá gítarsóló með stæl. Steini var að annars spældur að það skuli ekki nást Skjár einn þarna. Gunna Steina og sagnfræðingurinn lentu síðan óvænt í partýi á laugardagskvöldinu hjá leyndardómsfullu pari sem ekki vill láta nafns síns getið.