Föstudaginn 9. september bauð Ragnheiður Ríkharðsdóttir starfsmönnum á bæjarskrifstofum og bókasafni í gönguferð um bæinn og síðan heim til sín í Leirvogstungu. Þennan dag var búin að vera grenjandi rigning en meðan á gönguferðinni stóð var hæglætisveður og engin rigning. Þó voru göngumenn undir allt búnir í pollagöllum og vel skóaðir flestir. Fyrst var gengin sem leið liggur frá Kjarna og upp brekkuna bak við Búnaðarbankann og litið á leifar hitaveitustokksins sem eitt sinn lá þarna. Þar næst var gengið upp að dvalarheimilinu og niður á Langatanga og sagði bæjarstjóri frá fyrirhuguðum byggingum fyrir eldri borgara á auða svæðinu vestan við Leikskólann Hlíð. Síðan var haldið áfram niður Langatanga og að Álfatanga og þaðan niður eftir fram hjá bílskúrunum við Arnartanga. Inn í einum þeirra var hljómsveit að æfa og bankaði bæjarstjóri á dyrnar og óskaði eftir einu lagi en hljómlistarmennirnir voru feymnir og tóku ekki áskoruninni. Áfram var haldið niður stíginn í gegnum skóginn fyrir neðan Ásholt og í gegnum hesthúsahverfið. Við Skiphól var áð og bauð bæjarstjóri upp á eplasnaps. Síðan var farið yfir Köldukvísl og gengið upp eftir meðfram henni. Skoðaður var fossinn sem er svo vinsæll af unga fólkinu í Mosfellsbæ. Áfram var haldið fram hjá Kíwanishúsinu og sem leið liggur heim til Ragnheiðar. Á leiðinni skýrði hún út fyrirhugað byggingasvæði á Leirvogstungusvæðinu en þar er gert ráð fyrir að rísi 400 íbúða byggð á næstu 4 árum.
Heima í Leirvogstungu beið Daði eiginmaður Ragheiðar eftir hópnum með heita gúllassúpu sem bæjarstjórinn hafði eldað nóttina áður eftir að hún kom frá fundi á Selfossi. Súpan smakkaðist mjög vel ásamt brauði, skinku, ostum og pestó að ógleymdu rauðvíni og hvítvíni. Kvöldið leið fljótt enda var mjög gaman. Spilað á píanó og mikið sungið og allir skemmtu sér mjög vel.