miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Í vínsmökkun á Svanaánni


Á sunnudaginn fórum við Helga og Fjóla vinkona hennar í vínsmökkunarferð. Fjóla gisti hérna um nóttina, blánóttina réttara sagt, vegna þess að hún var að djamma á laugardagskvöldinu og skilaði sér hingað seint um síðir. En hún var hress að vanda um morguninn og keyrðu feðgarnir okkur niður að bryggju við Svan River í miðbæ Perth um hálf tíu. Þar beið okkur snekkja og 20-30 samferðamenn sem flestir voru án efa millar á heimsreisu. Fararstjórinn lét alla kynna sig og voru þarna á ferð Ameríkanar, Bretar, Frakkar, Ástralir og Danir. Samferðafólkinu fannst merkilegt að við værum frá Íslandi (nema Dönunum) og bárust hvalveiðar óneitanlega á góma í fyllingu dagsins.
Snekkjan sigldi síðan eftir ánni inn eftir Svanadalnum og á meðan var stjanað við okkur á alla kanta. Fyrst var borinn fram morgunmatur og síðan ostar og kex og hvert vínið á fætur öðru. Það var frábært að sigla eftir ánni. Veðrið var fallegt og meðfram henni var fólk að veiða, leika golf og krikket eða sat í fjölskyldupiknik. Flestir að vinka. Á ánni sigldu menn á kanúum og spíttbátum með fólk á sjóskíðum. Sumir voru að synda í vatninu. Um tíma fylgdi með okkur háhyrningur. Á ánni og við hana er líka fjölskrúðugt fuglalíf. Þarna sáum við meðal annars pelikana. Á sumum svæðum við ánna standa einbýlishús. Stórar villur með stórum görðum og einkabryggju. Við bryggjurnar stóðu litlar snekkjur eða smábátar. Eitt húsanna er til sölu ef einhver hefur áhuga!
Eftir tæplega tveggja tíma siglingu eftir ánni komum við að stóru fallegu húsi með stórum garði. Þetta hús er starfrækt fyrir veislur og er sérstaklega vinsælt að halda það brúðkaup. Úti í garðinum nálægt ánni var stólum og altari stillt upp fyrir hjónavígslur. Þarna hafði einmitt verið haldið brúðkaup deginum áður. Við gengum í land á þessum stað og fórum upp í rútu sem keyrði okkur á tvo vínbúgarða og í súkkulaðiverksmiðju. Á fyrri búgarðinum, Chesters Winery, fengum við hádegismat. Síðan var farið út í verksmiðjuna þar sem vínbóndinn skýrði út fyrir okkur framleiðsluferlið. Flestir létu sér nægja að hlusta en Frakkarnir þurftu að fá mun tæknilegri útskýringar enda sérfræðingar í faginu. Við fengum síðan að smakka á þessum ljúfengu vínum sem þarna eru búin til. Næst lá leiðin að Houghton Vineyard sem var mjög glæsilegur. Þar fengum við að smakka á enn fleirum tegundum. Að lokum var farið í Margaret River Chocolate Factory og smakkað á ljúffengu súkkulaði af ýmsum gerðum enda er hér sagt að súkkulaði eigi ávallt að fylgja víni. Hægt var að fylgjast með framleiðslunni á bak við gler. Frá súkkulaðiverksmiðjunni var síðan farið aftur að brúðkaupsstaðnum og um borð í snekkjuna. Á bakaleiðinni sátum við í stefni bátsins undir beru lofti ásamt nokkru af samferðafólkinu og nutum siglingarinnar, útsýnisins, góða veðurins og hlýs andvarans. Við komum aftur til miðborgar Perth um fimmleytið og þar biðu feðgarnir eftir okkur.
Frábær dagur á framandi slóðum!
Á bloggsíðunni hennar Fjólu má einnig lesa um þessa ferð:
http://fjola.blog-city.com/sunnudagssla_og_laugardagskvld.htm

1 Comments:

At 1:32 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hæ hæ, takk fyrir frábæran dag! cheers mate!

 

Skrifa ummæli

<< Home