Glöggt er gestsaugað
Fólkið hér í Vestur Ástralíu er flest vestrænt í útliti en þó nokkuð mikið er af asísku fólki. Eitthvað af því eru sjálfsagt ferðamenn vegna þess að Asía er ekki langt undan. Frumbyggjarnir eru ekki mjög áberandi en það má vera að það sé misjafnt eftir landsvæðum. Það er helst að maður sjái þá í miðborginni sem útigangsmenn. Þeir eiga ekki mikið upp á pallborðið hjá almenningi.
Í miðborginni og í lestunum eru skrifstofumennirnir, til og frá vinnu, auðþekkjanlegir frá öðrum. Þeir eru pent klæddir í svörtum buxum, í skyrtu og á bakinu eru þeir með bakpoka. Þegar heim er komið bregða þér sér í stuttermabol, stuttbuxur og sandala.
Í gær var ég ein á ferð. Tók lest til borgarhluta hér fyrir sunnan þar sem er stór kringla. Þangað fór ég í verslunarleiðangur. Á lestarstöðinni hitti ég tvær dökkleitar konur sem voru þó ekki frumbyggjar. Þær tóku mig tali og spurðu mig út í lestarferðarnar. Ég sagði þeim sem satt var að ég væri komin langt að og væri því ekki sérfræðingur í þeim efnum. Þær spurðu þá hvaðan ég væri. Þegar ég sagðist vera frá Íslandi þá spurðu þær hvort það væri á pólarsvæðinu. Ég vildi nú ekki jánka því og sagði að Ísland væri eitt af Norðurlöndunum og taldi upp, Danmörk, Noreg, Svíþjóð og Finnland. “Ég hef aldrei heyrt um þessi lönd” svaraði þá önnur konan.
Helga varð fyrir því að týna veskinu sínu þegar við gengum út í búð einn daginn. Henni brá óneitanlega mjög mikið þegar hún uppgötvaði það næsta dag. Í veskinu voru meðal annars öll kortin hennar, ökuskírteini og ca 5000 krónur í áströlskum dollurum. Seinna um daginn var hringt frá kirkju í grendinni og sagt að veskið væri þar. Helga fékk það tilbaka með öllu sem í því var. Þannig að það er heiðarlegt fólk hér um slóðir.
Það er mikið um útsölur hér um þessar mundir. Á boðstólum eru ekki síst falleg sumarföt. Vetrarfatnaður sést auðvitað ekki. Það er ekki auðvelt að finna skó sem henta íslenskri veðráttu. Hér eru aðallega bandaskór og sandalar til sölu. Margt er á svipuðu verði og heima en annað mun ódýrara. Bensínið er til dæmis helmingi ódýrara. Hægt er að leigja vídeóspólu á 50 kall og tilbúinn matur er á hagkvæmu verði.
Það er búið að setja upp jólaskraut í verslunum og á götum úti. Í miðborg Perth er komið stórt og fallegt jólatré. Líklega er það ekki frá vinabæ Perth í Noregi! Við tréið verða haldnir útitónleikar um næstu helgi og er búið að raða upp garðstólum fyrir tónleikagesti. Jólaskrautið fellur ekki sérstklega vel að veðráttunni og léttklæddu fólki með sólgleraugu. Það er skrítið að ganga um á ermalausum bol og hlusta á Gingle Bells.
Það sem vekur athygli okkar, sem búum á norðlægum slóðum, þegar við liggjum í sólbaði hér í Ástralíu er að sólin snýst í öfugan hring. Á hádegi er hún í hánorðri. Það borgar sig því ekki að nota sólina sem leiðarvísi.
Hér vinstri handar akstur og það þarf að muna eftir því þegar farið er yfir götunar. Bílstjórar taka ekki mikið tillit til gangandi vegfarenda. Það er skrítið að setjast inn í bíla og sjá stýrið hægra megin og gírstöngina til vinstri handar.
Hlýrri veðráttu fylgir fjölskrúðugt dýralíf ekki síst skordýralíf. Unga húsmóðirin úr Mosfellsbænum kann ekki mjög mikið að meta gestina úr garðinum sem lauma sér inn um óþétta garðhurðina. Þetta eru maurar, kóngulær og jafnvel eðlur. Einnig eru á ferðinni svartir ormar sem líkjast grasmöðkum en eru alla vega helmingi lengri. Þeir eru mjög fljótir í förum og eru komnir um allt hús ef ekki fylgst vel með. Unga húsmóðirin á það til að öskra upp yfir sig yfir ófögnuðnum og kemur þá innfæddi húsbóndinn á vettvang og bjargar málunum enda vanur maður og nú er hann búinn að lofa að draga fram verkfæratöskuna og þétta garðhurðina.
Hlýrri veðráttu fylgir líka fjöbreyttur gróður. Hér eru ávaxtatré, pálmar, stór furutré og hávaxnar rósir. En það er líka mjög þurrt. Grasblettir við húsin eru skrælnðir og er bannað að vökva þeim nema einu sinni i viku. Uppskerubrestur er yfirvofandi hjá bændum.
2 Comments:
Sæl Gunna mín.
Gaman er að fylgjast með þér á ferð þinni þarna hinumegin. Hér eru lægðirnar að keppast við að senda til okkar rok og rigningu, en þess að milli er kuldi og snjór eða slabb.
Kær kveðja til Helgu.
Kristín Magg
Gaman að heyra í þér Kristín mín. Já nú fer ég að leggja af stað heim í slabbið. Fer héðan mánudag. Vona að ég verði ekki veðurteppt í London. En þetta er búinn að vera æðislegur tími en verður ágætt að koma heim aftur í rokið og rigninguna.
Skrifa ummæli
<< Home