fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Mosi


Nýjasta málverkið í Gallerí Gunnu er af mýrarmosa. Ekki er viðfangsefnið listamanninum ókunnugt. Má segja að mýrarmosinn sé honum mjög hugleikinn. Efnið , sem málað er á, er óvenjulegt. Það er svart með litlum dúskum. Gunna Steina saumaði eitt sinn á sig selskabsjakka úr efninu. Og vegna þess að hún hefur aldrei tímt að henda afgöngum af efnum átti hún til þennan efnisbút sem hún grunnaði og strekkti á ramma. Þetta kom mjög skemmtilega út og nú er Gunna Steina búin að strekkja á fleiri ramma og er að hugsa um að fórna sjálfum selskabsjakkanum því ekki eru til fleiri bútar.
Ekki er ósennilegt að henni gefist góður tími til að mála næstu vikurnar á meðan hún þarf að dveljast heima við.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Sokkadagur


Í dag var sokkadagur í vinnunni hjá Gunnu Steinu. Fólk kom í ýmis konar sokkum, jólasokkum, röndóttum, köflóttum, með bjöllum og fl. Gunna Steina mætti í bleikum og svörtum sokkabuxum með sebramunstri.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Sigurrós í innkaupapoka


Sigurrós fann sér í kvöld góðan felustað. Það var Lee innkaupapoki sem fylgdi með í kaupunum þegar Santa fe-inn var keyptur og lá í aftursæti bílsins. Í pokanum voru krumpuð karlsmannsföt sem eru það halló að Steina finnst ekki freistandi að fá þau lánuð til að fara í skólann. Nú er úr vöndu að ráða. Á að láta Rauða krossinn fá fötin eða á að reyna að hafa samband við konuna á Eyrabakka sem átti bílinn og athuga hvort einhver fanginn á Litla Hrauni hafi týnt sparifötunum sínum í bæjarferð? Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun í málinu en á meðan þau Gunna Steina virtu fyrir sér leppana notaði Sigurrós tækifærið og fór inn í búðarpokann og kunni vel við sig þar.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Loksins fékk Brynja lopapeysuna


Brynja fékk í jólagjöf frá Helgu innleggsnótu fyrir lopapeysu hjá Gallerí Gunnu. Vegna þess að prjónakonan var lasin fyrir jól, og vissi líka að Brynja var á leiðinni í sól og sumar hinum megin á hnettinum í janúar, þá lá ekki mjög mikið á að klára peysuna. Hún var þó tilbúin stuttu eftir að Brynja kom á klakann aftur seinnipartinn í janúar. Frá því að hún kom heim hefur verið hlýtt og gott veður. Mun hlýrra heldur en á meginlandinu og fólk hefur getað gengið um léttklætt. En nú hefur kólnað aftur og er að verða lopapeysu veður. Brynja á því vonandi eftir að nota peysuna á næstunni.

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Steini í nýjum jakka


Í dag fóru Gunna Steina og Steini í Smáralindina en þar var útsölumarkaður í öllum búðum. Án efa hefði Helga fundið þar ýmislegt spennandi við sitt hæfi en hún var fjarri góðu ganni stödd hinum megin á hnettinum. Steini var að leita af hversdagsfötum til að nota í skólann og í versluninni Blend fann hann svartar buxur, röndótta skyrtu og rauðan flauelisjakka sem honum leist vel á og var á góðu verði. Gunnu Steina var hugsað til sagnfræðingsins þegar hún rétti fram kreditkortið og borgaði fyrir dressið og var ekki alveg viss um að sagnfræðingurinn kynni að meta smekk unga mannsins. En á daginn kom að honum fannst Steini bara helv. reffilegur í nýju fötunum.