Þá erum við mætt í Washingtonborg og erum í næsta nágrenni við Hvíta húsið. Allt hefur gengið eins og í sögu og þegar við komum á herbergið á Marriott hótelinu í miðborginni biðu okkar samlokur, gos og bjór í fötu með klaka og ein nellika í vasa eins og um var samið. Ekki vorum við lengi að sporðrenna veitingunum enda orðin glorsoltin.
Steini var gómaður heima í öryggiseftirlitinu. Hafði ætlað að punta sig fyrir amerísku dömunum og var með rakspýra og shampó í handtöskunni. Honum var umsvifalaust kippt til hliðar og þurfti síðan að fara aftast í röðina aftur eftir að varningurinn hafði verið gerður upptækur. En það var nú í lagi að vera nappaður heima. Hann er þá betur undirbúinn fyrir heimferðina. Veit að þetta er bannað.
Við komuna til Bandaríkjanna vorum við mynduð og tekin af okkur fingraför. Allur er nú varinn góður þegar svona lið ofan af Íslandi er annars vegar. Skutlan, sem ég pantaði, var til taks og keyrslan frá flugvellinum tók tæpan klukkutíma. Bílstjórinn mjög hress, grínaðist og lék á alls oddi alla leiðina en við vorum 6 farþegarnir. Hótelið er mjög flott. Niðri í lobbíinu sat hörundsdökkur maður við flygil og spilaði dinnermúsik. Handan götunnar er þekkta verslunarhúsið Macy's. þangað er ég að hugsa um að laumast þegar feðganir sjá ekki til.
Þó samlokurnar væru góðar settumst við inn á veitingahús, sem er hér á hótelinu og fengum okkur smá ameríska mat sem smakkaðist mjög vel.
Það fór vel um okkur í stóru rúmunum. "Mogginn" er kominn. UsA today. Allt til alls hér.
Á hæðinni fyrir neðan okkur er sundlaug og ég væri svikinn ef sagnfræðingurinn eigi ekki eftir að bregða sér þangað seinna í dag eftir að við verðum búin að skoð okkur um.