fimmtudagur, september 21, 2006

Til Ástralíu



Eftir mánuð, eða 25. október, mun Gunna Steina leggja land undir fót og og ferðast alla leið til Perth í Vestur Ástralíu. Ferðin þangað mun taka 32 tíma þar af 21 í lofti. Fyrst mun leiðin liggja til London, síðan til Singapore og því næst áfram til Perth. Erindið þangað er að hitta Helgu og feðgana Ben og súperstjörnuna Orra Victor. Orri Victor verður þá væntanlega búinn að koma sér vel fyrir í Gallipolistreet eftir að hafa dvalist fyrstu tvo mánuði lífs síns á sjúkrahúsi. Ekki ólíklega verður hann farinn að leika fótbolta við krakkana í hverfinu ef miða má við ótrúlegar framfarir sem hann hefur tekið frá fæðingu. Sannkölluð ofur hetja. Áfram Orri Victor!

föstudagur, september 01, 2006

Háskólapían Gunna Steina


Í vor fékk Gunna Steina þá flugu í höfuðið að innrita sig í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Sú fluga er að vísu ekki ný af nálinni. Hún hefur verið á sveimi í ótal mörg ár en hefur alltaf verið beðin um að bíða af ýmsum ástæðum. En í lok ágúst mætti Gunna Steina norður á Akureyri á velgengisdaga við Háskólann á Akureyri í gallabuxum , leðurjakka og með nýju fartölvuna á öxlinni ásamt öðrum nýnemum og skrifstofustjóri viðskipta- og raunvísindadeildar sannfærði hana um að hún væri örugglega ekki aldursforsetinn í skólanum. Nú var ekki aftur snúið og er Gunna Steina búin að sitja undirbúningsnámskeið bæði í fjárhaldsbókhaldi og stærðfræði og er komin á fullt skrið í náminu. Hvernig gengur verður bara að koma í ljós en aðalatriðið er að hafa gaman af þessu. Þetta er áskorun og það er alltaf gaman að spreyta sig.