sunnudagur, ágúst 27, 2006

Sumarbústaðaferð

Oft líður langt á milli að gömlu vinkonurnar á Laufásveginum og Bergstaðastrætinu hittist. En það er alltaf jafn gaman þegar það gerist. Fyrir skemmstu buðu þær Kristín Þórðar, Sigga og Ásta okkur hinum í skemmtiferð austur fyrir fjall að skoða sumarbústaðina sína. Fyrst var farið í bústaðinn hennar Ástu í Þrastaskógi. Hún bauð upp á osta, kex og smartan ananas drykk á nýja pallinum við bústaðinn í góðu veðri og sól. Síðan var haldið í Kerhraun til Siggu og nýji sumarbústaðinn hennar skoðaður. Þar var borðaður kvöldverður og skálað í hvítvíni. Síðast var komið við í ættaróðalinu hennar Kristínar Þórðar í Þrastarskógi og þar fengum við hressingu og létum fara vel um okkur í vinalegu umhverfi. Innilegar þakkir fyrir ferðina, stelpur. Góð vinátta er gulli betri.


mánudagur, ágúst 07, 2006

Orri Victor


Hann Orri Victor er kominn í heiminn löngu áður en von var á honum. Hvað er maður líka að láta bíða eftir sér? Hann er dugnaðardrengur, fallegur og vel skapaður. Amma getur varla beðið eftir að fá að sjá hann. Það ætlar hún að gera þó að hún þurfi að ferðast yfir hálfan hnöttinn.

Vertu nú yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.