fimmtudagur, júlí 27, 2006

Í Danmörku


Það er alltaf æðislegt að koma til Danmerkur. Í þessari ferð var veðrið hreint frábært alla dagana en kannski helst til of heitt. Við leigðum ótrúlega flott hús í Næsby ved Stranden á Sjállandi. Gistum á herragarðinum Skröbelevgård á Langalandi og í gamla skólanum í Majbølle á Lollandi sem búið er að breyta í frábært, heimilislegt gistiheimili. Okkur fannst sérstaklega fallegt við Svendborg á Fjóni, á eyjunni Tåsingen og á Langalandi. En hápunktur ferðarinnar var þó að koma til Nørre Tvede til systranna Tove og Jytte. Þær kunna svo sannarlega að taka á móti gestum og bjóða upp á dæmigerðan danskan frokost og þar ræður danski húmörinn ríkjum.

Myndir úr ferðinni: http://public.fotki.com/gunnasteina/denmark/

föstudagur, júlí 14, 2006

Mosó breytist


Ekki er hægt annað en að segja að mikil uppbygging sé í Mosfellsbæ. Nýja "Kringlan" sem á að hýsa Nóatún, Krónuna, Blómahús Hlínar, Innrömmun og eflaust margt fleira hefur risið upp við hlið Essóbensínstöðvarinnar. Á meðfylgjandi mynd má sjá nýja húsið og bak við það sést í nýja Krikahverfið sem er að byggjast upp í hlíðum Lágafells. Það eru því ófáir iðnaðarmenn, gröfukallar og verkamenn sem eru að störfum í Mosfellsbæ um þessar mundir og stór hluti þeirra virðist vera útlendur ef marka má viðskiptavini Bónusverslunarinnar. Mosfellsbær er um þessar mundir sannkallaður fjölþjóðlegur bær.