þriðjudagur, mars 28, 2006

Nýtt sófasett!

Fyrir rúmlega hálfu ári síðan gekk sagnfræðingurinn í það að kvarta við TM húsgögn yfir gallaða ítalska leðursófasettinu sem keypt var af þeim ári áður. Sófasettið var dæmt ónýtt og fékk sagnfræðingurinn innleggsnótu upp á 170 þúsund krónur. Þau sagnfræðingurinn og Gunna Steina hafa síðan oft gert sér ferðir í verslunina, ýmist saman eða sitt í hvoru lagi, en ekki fundið neitt spennandi til að versla fyrir í staðinn. Um síðustu helgi var heilsíðu auglýsing í blöðunum frá versluninni og samkvæmt henni var í mikil útsala og átti allt að seljast vegna þess að búið er að selja búðina. Sagnfræðingurinn og Gunna Steina sáu að ekki þýddi að bíða lengur með að versla út á innleggsnótuna og með hana í farteskinu fóru þau hjónin á nýja Santa feeinum niður í Síðumúla. Þar var mikill handagangur í öskjunni og margir þar í þeim erindagjörðum að gera góð kaup. Það vildi svo heppilega til að rétt við innganginn var þetta líka ekki smá klassa leðursófasett í ljósum lit sem hafði kostað 250 þúsund en var nú á tilboði þannig að innleggsnótan dugði næstum. Það er skemmst frá því að segja að sagnfræðingurinn gjörsamlega féll fyrir settinu, fékk afgreiðslu og keypti settið. Það þýddi ekkert fyrir Gunnu Steinu að reyna að hafa áhrif á þá ákvörðunartöku og var hún gjörsamlega mát. Í dag kom sendiferðabíll með settið og nú eiga þau hjónakornin í Bugðutanganum þrjú leðursófasett. Eitt hvítt, eitt brúnt og eitt ljóst. Ekki er hægt að koma nema tveimur settum fyrir í stofuna í einu þannig að nú er úr vöndu að ráða. Spurningin hvort það sé sniðugt að geyma eitt sett í bílskúrnum í einu og skipta um á ca. þriggja mánaða fresti.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Viktor fékk nýja peysu


Nú er Viktor búinn að fá nýja peysu frá Gallerí Gunnu. Hún ætti sem betur fer að duga eitthvað vegna þess að hún er vel við vöxt. Kannski má sjá kappann í peysunni næsta vetur þegar hann verður byrjaður í alvöru skóla.

sunnudagur, mars 12, 2006

Bíddu nú við..var ekki að koma vor?



Í gær var vorlegt og tréin byrjuð að springa út og krókusar og jafnvel páskaliljur líka en í morgun var vetrarlegt að horfa út um gluggann í Bugðutanganum. Það var kominn heilmikill snjór. Snjóðruðningstæki á fullu að moka snjóinn og nágrannarnir að moka tröppurnar. Gunnasteina hætti sér út i bakarí að kaupa rúnstykki með morgunkaffinu en hafði með sér göngustafi sér til halds og trausts. Í stígnum innst í Bugðutanganum var hann Bjössi á númer 42 með skóflu að moka á fullu. Hann sá fram á að stígurinn yrði ekki mokaður og fannst það lítið mál að ráðast í þær framkvæmdir.