þriðjudagur, janúar 31, 2006

Nýi bíllinn


Í dag var stór dagur í lífi sagnfræðingsins. Hann keypti sér nýjan bíl, glansandi flottan Hyundai, Santa fe, jeppa. Gunna Steina bíður spennt eftir að verða boðið í fjallaferðir í sumar en kannski er nýi jeppinn of fínn í slíkar reisur. En stórum flottum bíl fylgir rekstrarkostnaður og kostaði rúmlega 6 þúsund að fylla bílinn en aðeins fylgdu nokkrir bensíndropar með í kaupunum. En vonandi var þetta heillaspor í lífi sagnfræðingsins að kaupa bílinn og án efa á hann eftir að veita honum gleðistundir. Kannski að Gunna Steina takist að fá hann til að fá áhuga fyrir að ferðast upp til fjalla með tíð og tíma.

föstudagur, janúar 27, 2006

Ég heyri svo vel....


Hann Viktor er búinn að fá ný eyru og nú getur hann sungið:

Ég heyri svo vel, ég heyri snjóinn snjóa.
Ég heyri svo vel, ég heyri grasið gróa.
Ég heyri svo vel, ég heyri orminn mjóa.
Heyri hárið vaxa, heyri neglurnar lengjast,
heyri hjartað slá.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Sigurrós á skólabekk.


Hún Sigurrós er bráðum að verða 5 ára gömul og því ekki skrítið að hún sé orðin spennt að fara í skóla. En vegna þess að kettir eldast hraðar en menn þá er Sigurrós orðin nokkuð stálpuð og því ekki skrítið að hún hafi áhuga fyrir skólabókunum hans Steina og kannski að hún skelli sér með honum í samræmd próf í vor. Hver veit nema að hún haldi síðan áfram á menntabrautinni og haldi jafnvel til fjarlægra landa í framhaldsnám og leggi fyrir sig rannsóknir á samskiptum katta á alþjóða vettvangi .

föstudagur, janúar 13, 2006

(Jóla)snjór?



Jólasnjórinn kom heldur seint þetta árið. Jólin eru löngu liðin. En Þorrinn er að vísu að gæjast fyrir hornið og þá má alltaf búast við vetrarhörkum hér á Fróni. En það var eins gott að snjórinn var ekki kominn í desember. Það hefði verið erfitt fyrir Helguna að brjótast til byggða á Litla Hvít í þessari færð. En svona var útlitið í Bugðutanganum í morgun.

sunnudagur, janúar 08, 2006

Umhleypingar


Í morgun var snjór í Bugðutanganum. Það var vel hægt að búa til engla í snjónum. En síðdegis var komin helli rigning og snjórinn á bak og burt. Gunna Steina skrapp austur fyrir fjall í dag með Helgu Haralds, dóttur hennar og tengdasyni, til að taka formlega við bústaðnum í Vaðnesi. Það var leiðindarveður á Hellisheiði, snókoma og hálka og einn jeppi lá á hvolfi utan vegar.
Steini fór í gærmorgun til Akureyrar að keppa í íshokkey. Þeim gekk vel og unnu leikinn og fóru aftur suður um miðnætti. Gunna Steina sótti þá Emil klukkan rétt fyrir 5 að morgni út á Essóplan þar sem rútan stoppaði og hleypti þeim félögum út ásamt hafurtaski.