föstudagur, október 11, 2013

Á Sikiley í október 2011



Sikileyjarferðin í október 2011 er eftirminnileg. Frá Palermo fórum við með rútu til Cataniaflugvallar á Suður Sikiley við rætur Etnu. Þar beið okkar bílaleigubíll og þaðan keyrðum til til strandbæjarins Marina de Ragusa.
Það var alveg klikkað að keyra á Sikiley. Við gátum keyrt hraðbrautina meðfram ströndinni eins og maðurinn á bílaleigunni ráðlagði okkur. Við byrjuðum að keyra eftir henni. Þar var ansi hratt keyrt og við ákváðum að færa okkur yfir á sveitaveginn Þetta var eins og Vesturlandsvegurinn í brjálaðri umferð þegar allir eru að flýta sér. Menn voru að taka fram úr þó að það væri bein lína og voru óþolinmóðir alveg upp í rassinum á okkur að reyna að fara framúr. Við stoppuðum tvisvar á leiðinni bara til að slappa af. En leiðin var mjög falleg og landslagið tignarlegt á mörgum stöðum.

Íbúðin sem við vorum búin að taka okkur á leigu var rétt fra ströndinni og þó að við værum á ferðalagi utan aðal ferðamannatímans þá var verðrið mjög gott og yndislegt að vera í þessum bæ, Marina de Ragusa,  sem er vinsæll af Ítölum og Sikileyjarbúum á sumrin þá eru þar um 80.000 manns. Þegar við vorum þar voru þar aðeins um 3.000.

Á næsta horni við okkur var matvöruverslun með hagstætt verð og seldi allt af öllu og ofar í brekkunni var stór kjörbúð með dýrari varning. Við vorum rétt við gamla bæinn og heyrðum í kirkjuklukkunum. Það var  örstutt að ganga að torginu þar sem gömlu mennirnir hittast til að spjalla. Við torgið er banki, apótek, veitingahús og búðir. Inn í miðri viku var mjög rólegt í Marina de Ragusa en á laugardeginum fór allt að lifna við og fleiri veitingastaðir og ísbúðir opnuðu. Það streymdi að fólk úr öðrum bæjum og sveitum.

Ská á móti íbúðinni okkar var stór villa á þremur hæðum. Þar bjuggu hjón með fimm hunda og einn kött. Það var smá pirrandi þegar hundarnir geltu. Eigandinn var dökkur á brá og brún og var sagnfræðingurinn að spekúlera hvort þetta væri nokkuð Gabriel Marquise, Suður Ameríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahöfundurinn. Honum fannst nágranninn svo líkur honum. Ég heyrði hins vegar ekki betur en að konan hans kallaði Anton á eftir honum þegar hann gekk upp brekkuna með fjóra af hundunum í bandi. ;-)
Í Marina de Ragusa áttum við rólega daga en fórum líka í bíltúra  Við keyrðum til bæjanna Ragusa og Scicli
se eru á skrá Unesco. Árið 1693 varð mikill jarðskjálfti á þessu svæði. Margir bæir í dalnum fyrir ofan fóru í rúst. Þeir voru byggðir aftur í barrok stíl og þykir endurbyggingin hafa tekist vel og er fallega skipulögð. Það var mjög sérstakt að koma til Scicli og erfitt að lýsa því nema með myndum.

Fá Sikileyjarferðinni hefur leið okkar legið til Parísar, Amsterdam, Spánar, Prag og Danmerkur. Nú er að koma að stóru ferðinni til Ástralíu. En þangað ætlum við að fara til að hitta dóttur okkar og fjölskyldu.
Ef ég verð í betra internetsambandi í þeirri ferð heldur en á Sikiley þá mun ég segja frá ferðinni á þessari síðu. 

miðvikudagur, október 05, 2011

Á Sikiley





Að koma til Sikileyjar frá Íslandi er eins og að hoppa inn hásumarið. Hitinn að kvöldi 1. október var um 25 stig. Á flugvellinum beið okkar bílstjóri sem sérstaklega var kominn til að sækja okkur og keyra til Novecente B&B, gistinguna hjá Dario á Via Roma. Bílstjórinn hélt á spjaldi með nafninu mínu og vorum við því fljót að finna hann. Í Palermo er umferðin snarklikkuð og bílamergðin yfirþyrmandi. Bílstjórinn sagði okkur að það vantaði neðanjarðarlestarkerfi í borgina þess vegna væri svona mikið af bílum og öðrum farartækjum. Í borginni mega gangandi vegfarendur vara sig. Það er erfitt að fara yfir götur og ökumenn fara ekki endilega eftir umferðarreglum og flauta í gríð og erg.
Leiðin að Noecente tók um hálftíma og keyrðum við í gengum borgina. Það var mjög þægilegt að fá keyrslu heim að dyrum gistiheimilisins. Á móti okkur tók Dario, ungur maður sem rekur Novecente. Þetta er þriggja stjörnu gisting og allt mjög huggulegt, hreint og fínt. Húsið er gamalt og það er mjög hátt til lofts, ca, fjórir metrar og flottir listar í loftinu. Herbergin eru fimm og er hvert með sínu baðherbergi. Þau eru að vísu hinum megin við ganginn og er það gert til að eyðileggja ekki loftlista og byggingarlag. Við herbergið okkar voru litlar svalir sem maður þorfði varla út á vegna þess að gistiheimilið er á 5. hæð í húsi með mikla lofthæð á hverri hæð.

Morgunmatur er framreiddur í borðstofu þar sem gestir sitja saman við borðstofuborð. Mjög heimilislegt. Dario bakar sjálfur brauðið með morgunmatnum en hann dæmigerður ítalskur með mikið af sætum kökum og ávöxtum.

Við komum til Palermo að kvöldi og vorum orðin mjög svöng. Höfðum aðeins fengið okkur smávegis um morguninn og síðan nælt okkur í samloku í London en þar stoppuðum við stutt á milli fluga og það gafst ekki tækifæri til að setjast niður og fá sér almennilega borða. Dario benti okkur á veitingastað sem heitir Casa des Broedes á Corso Vittorio Emanuel. Hann pantaði fyrir okkur borð en án þess hefði ekki verið auðvelt fyrir okkur að fá borð. Við borðuðum þarna sikileyskan mat sem var tvírétta og bragðaðist vel.

föstudagur, maí 15, 2009

Mosarokk - Ampersand


Hljómsveitin Ampersand tók góða takta á Mosarokk tónleikum í Mosfellsbæ 14. maí.

mánudagur, október 13, 2008

Fallegt í Toskana


Friðrik að störfum við sundlaugina á Il Pozzo. Draumavinnustaður sagnfræðings og rithöfunar.


Sagnfræðingurinn tekur sundtökin í "einkasundlauginni."

Útsýni frá íbúð okkar á Il Pozzo. Í hlíðinni á móti eru búgarðar sem rækta vínvið og ólífur.



Þetta fallega, sérkennilega tré sá ég í bænum Poppi í Castellodalnum.





Áin Arno þar sem hún rennur í bænum Capolona í Castellodalnum.



Haustlitir í fjöllunum.



Þessi gamla kona hvíldi lúin bein í þorpinu Zenna í Castellodalnum. Aðrir íbúar voru á vínakrinum að tína vínber.




Kirkja heilags Frans í Assisi en þangað keyrðum við einn daginn. Það var ógleymanleg ferð.



miðvikudagur, október 08, 2008

Afmæli á Il Pozzo

Skálað í stofunni í Verenda íbúðinni á Il Pozzo
Fyrir framan íbúðina höfum við bæði setkrók og borðstofuborð.

Carla skenkir rauðvín sem framleitt er á búgarðinum Il Pozzo.


Hér býður mamma hennar Cörlu norskri konu upp á spes Toskana rétt



Hér er Carla að skera niður reykt og hangið svínalæri að hætti Toskanabúa


Skálað við upphaf frábærrar Toskanamáltíðar sem tók heila þrjá klukkutíma.
Afmælið hófst með því að skálað var í freyðivíni í íbúðinni okkar. Síðan gengum við niður á neðri hæðina þar sem mamma hennar Cörlu var á fullu að undirbúa kvöldmatinn. Á sumrin er meira um að vera hér en nú eru bara gestir í þremur íbúðum af átta. Tvær norskar konur í einni íbúðinni, danskt par með ungabarn í þeirri annarri og síðan Friðrik og ég í þeirri þriðju. Þetta var hópurinn sem hittist undir fordrink í arinstofunni og talaði saman á skandinavisku. Hinir gestirnir vissu að vísu ekki að um afmælisveislu var að ræða enda greiddu allir fyrir máltíðina á eigin vegum og á sínu eigin gengi.
Og þvílík máltíð. Þeir sem hafa lesið ítalska matseðla vita að þeir eru margrétta. Þegar maður skilur ekki ítölsku er erfitt að panta. Þess vegna er mjög gaman að lenda í ítalskri matarveislu en hún getur ekki endað á öðru en því að maður stendur á blístri.
Máltíðin byrjaði á forrétti sem samastóð af snittum, ólífum, ostum og súpu. Síðan kom niðursneidd hráskinka og brauð, þar næst frábært pasta sem við fengum okkur tvisvar af vegna þess að við héldum að það væri aðal máltíðin en þá átti eftir að koma kjötmáltíð, svínakótelettur með salati og kartöflum og að lokum eftirréttur, dýrindis súkkulaðikaka með rjómadesert, kaffi og líkjör. Með matnum var boðið upp á rauðvín sem framleitt er á búgarðinum Il pozzo.
Ég spurði Cörlu hvað húsin á Il Pozzo eru gömul og hún sagði að þau væru frá þrettándu öld. Þessu get ég vel trúað því þó að allt sé hérna mjög smart og skemmtilega skreytt þá eru veggir og gólf greinilega mjög gömul. Þegar sagnfræðingurinn heyrði að húsakynnin væru frá 13. öld fór hann að spá í hvort Sturla Sighvatsson hefði hugsanlega komið hér við og fengið sér rauðvínsglas á leið sinni suður til Rómar á fund páfans á einmitt þrettándu öld.


þriðjudagur, október 07, 2008

Á Il Pozzo búgarðinum í Toskana

Útsýni frá svefnherbergisglugganum
Horft út um svefnherbergisgluggann.

Sagnfræðingurinn að störfum við íbúðina í Il Pozzo.


Horft frá íbúðinni yfir sundlaugargarðinn og byggðina í hlíðinni á móti.

El Pozzo i Toskana er fallegur gamall búgarður sem hefur verið breyttur í ferðamannaíbúðir. Þar eru einnig ræktaðar ólífur, hunang og vín. El Pozzo stendur hátt upp í hlíðinni í gróðursælum dal. Eftir dalnum liðast ánin Arno sem einnig rennur í gegnum Flórens og til sjávar ekki langt frá Pisa. Hér er áin friðsæl og er umvafin gróðri. Eftir dalbotninum má stundum sjá litla lest sem er á leið til bæjanna ofar í dalnum. Íbúðirnar átta og allt umhverfi húsanna er fallega skreytt með skemmtilegum munum og gróðri. Sundlaugin og umhverfið í kringum hana er sérstaklega fallegt.
Búgarðurinn er innan girðingar sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Til að komast inn á landareignina þarf að fara inn um stórt járnhlið sem er læst. Við fengum í hendurnar sjálfvirkan opnara sem við beinum að hliðinu úr bílnum og þá opnast hliðið hægt og rólega. Síðan keyrum við inn fyrir í herlegheitin eins og millar og lokum hliðinu aftur.
El Pozzo er rekið af snaggaralegri ungri konu, Cörlu, sem er varla yfir þrítugt. Hún er sérstaklega viðfeldin og almennileg. Hún er tvisvar búin að baka hjartalaga köku fyrir okkur og vill allt fyrir okkur gera. Á búgarðinum er lítil hugguleg veitingastofa þar sem mamma Cörlu eldar Toskana mat 3-4 sinnum að sumri. Utan aðalferðamannatímans eldar hún sjaldnar. Svo skemmtilega vill til að hún ætlar einmitt að elda í dag 8. október. Þar mun ég því halda upp á afmælið mitt.

laugardagur, október 04, 2008

Flórens er flott






Flórens er ótrúlega flott borg í fallegu umhverfi. Hér var vagga endurreisnartímans og hingað á nútíma menningin sínar rætur segir sagnfræðingurinn. Við erum búin að skoða merkileg söfn, glæsilegar byggingar og listaverk. En það er líka gaman að ganga um þröngar götur gamla bæjarins og skoða mannlífið.

Umferðarmenningin er svipuð hér eins og annars staðar þar sem við höfum verið á Ítalíu. Hún er mikil og hröð og það er varla stoppað fyrir gangandi vegfarendum nema þeir æði út á götuna. Þá er spurning hvernig fer.



laugardagur, ágúst 02, 2008

Sogin og Keilir



Á föstudag fyrir verslunarmannahelgi var dásamlegt veður. Við fórum í gönguferð á Reykjanes og keyrðum að Djúpavatni. Við gengum upp í Sog og horfðum yfir litadýrðina. Stórkostlegt veður og stórkostlegt útsýni.

föstudagur, maí 16, 2008

Vor í Danmörku

Í maí fórum við í ferðalag til Danmerkur og vorum ákaflega heppin með veður.

mánudagur, maí 12, 2008

Sáðmenn sandanna - Besta fræðibókin árið 2007


Sáðmenn sandanna hefur verið valin besta fræðibókinn árið 2007 af Upplýsingu, Félagi bókasafns- og upplýsingafræðina.
Nefndin er mjög nákvæm í vinnubrögðum við val á fræðibók ársins og og sum árin hefur engin bók uppfyllt skilyrðin sem hún setur. Þetta er því mjög mikill heiður fyrir sagnfræðinginn. Til hamingju Friðrik!

fimmtudagur, mars 20, 2008

Sagnfræðingurinn og skáldið

Friðrik G. Olgeirsson við styttu Davíðs Stefánssonar í minningarreitnum við Fagraskóg.

föstudagur, mars 07, 2008

Afmæli Kristínar


Kristín Þórðar hélt upp á 60 ára afmælið sitt með glæsibrag 29. febrúar í Blómasal Hótel Loftleiða enda átti hún afmæli þann dag í 15. sinn. Gömlu æsku vinkonurnar af Laufásveginum og Bergstaðastrætinu þær Ásta Sigurðar, Gunna Þorsteins, Sigga Þráins og Guðrún Ósvalds létu sér ekki muna um að flytja fyrir hana frumsamið ljóð og syngja um hana brag við undirleik Árna Ísakssonar eiginmanns Ástu. Kristín Magg var því miður fjarri góðu ganni þetta kvöld.

föstudagur, janúar 11, 2008

Til Skotlands á sokkaleistunum.


Til Skotlands á sokkaleistunum.

Ég sit í huggulegu hótelherbergi með útsýni yfir Georgstorg í Glasgow þar sem verið er að taka niður skautasvellið sem hér hefur verið frá því í nóvember. Það er líka verið að taka niður jólaskrautið í kringum torgið sem hefur án efa verið hið glæsilegasta um hátíðarnar. Út um gluggann blasir við ráðhúsið sem við, hópur starfamanna frá bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar, heimsóttum síðastliðið vor með þáverandi bæjarstjóra í broddi fylkingar. Á torginu eru hin ýmsu minnismerki og styttur af fornum hetjum á hestbaki. Ferðin hingað gekk vel en þó við værum komin snemma í Leifsstöð gafst ekki mikill tími til að slappa af fyrir brottför. Ekki er nema tæplega tveggja tíma flug frá Keflavík til Glasgow og það er því ótrúlega stutt að skreppa í þessa tilbreytingu sem hér er að finna.
Segir nú ekki af för okkar fyrr en flugvélin var farin að nálgast Bretlandseyjar. Þá er mér litið á hægri fótinn og sé að hællinn á skónum er farinn að dingla. Þegar ég skoðaði þetta nánar sá ég að hællinn hékk á smá skinntætlu. Ég fór úr skónum og sá að ekki var annað að gera en að slíta skinnböndin sem skildu á milli hæls og skóar. En þegar þar var komið sögu stóðu fjórir járngaddar niður úr skónum. Inn í hælnum var járnplata og gengu járngaddarnir niður úr henni og í gegnum skóinn. Gaddarnir voru úr hörðu járni og reyndi sagnfræðingurinn að beygja þá en þrátt fyrir að vera afkomandi Frímanns sterka úr Fljótunum bar það engan árangur. Við reyndum að spenna járnplötuna upp en höfðum ekkert annað en plasthnífapör að grípa til. Nú voru góð ráð dýr. Þarna sat ég með skaðræðisvopn í höndum um borð í flugvél sem var að fara að gera sig klára til lendingar á Bretlandseyjum Það var eins gott að ég var ekki á leið til Bandaríkjanna.
Það var ekki annað að gera að fara úr hinum skónum og síðan fór ég á sokkunum aftur í vél til flugfreyjanna með vopnið vel falið í höndunum eins og dæmigerður flugvélaræningi. Þær urðu alveg hissa og höfðu ekki séð annað eins en sem betur fer þá fannst þeim greinilega ekki að ég væri líkleg til hryðjuverka þannig að sé fékk bara samúð hjá þeim. Þær gáfu mér bláa skokka sem Saga class farþegar fá og sögðu að það væri betra fyrir mig að hafa þá utan um mína sokka. Það myndi enginn taka eftir því að ég væri á sokkaleistunum. Ég skyldi bara setja skóna niður í handtöskuna.
Þegar vélin var lent biðum við með að fara út úr vélinni þangað til flestir væru farnir þannig að enginn færi að stíga á fætur mínar. Síðan gengum við út úr vélinni og eftir landganginum inn í flugstöðvarbygginguna. Það var grenjandi rigning í Glasgow þannig að ég varð strax blaut í lappirnar í landganginum. Ég sá ekki að nokkur tæki eftir fótabúnaði mínum en sjálfri hefði mér liðið betur í mínum eigin svörtu skokkum heldur en heiðbláum Saga class sokkum. En þannig gekk ég í gegnum vegabréfsskoðun og vonandi er þetta í fyrsta og síðasta skipti sem ég kem á sokkaleistunum til Skotlands. þegar við vorum búin að fá töskurnar okkar flýtti ég mér að ná í kuldaskóna mína sem ég hafði meðferðis.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Gleðilegt ár!


föstudagur, desember 28, 2007

Hvít jól