föstudagur, janúar 11, 2008

Til Skotlands á sokkaleistunum.


Til Skotlands á sokkaleistunum.

Ég sit í huggulegu hótelherbergi með útsýni yfir Georgstorg í Glasgow þar sem verið er að taka niður skautasvellið sem hér hefur verið frá því í nóvember. Það er líka verið að taka niður jólaskrautið í kringum torgið sem hefur án efa verið hið glæsilegasta um hátíðarnar. Út um gluggann blasir við ráðhúsið sem við, hópur starfamanna frá bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar, heimsóttum síðastliðið vor með þáverandi bæjarstjóra í broddi fylkingar. Á torginu eru hin ýmsu minnismerki og styttur af fornum hetjum á hestbaki. Ferðin hingað gekk vel en þó við værum komin snemma í Leifsstöð gafst ekki mikill tími til að slappa af fyrir brottför. Ekki er nema tæplega tveggja tíma flug frá Keflavík til Glasgow og það er því ótrúlega stutt að skreppa í þessa tilbreytingu sem hér er að finna.
Segir nú ekki af för okkar fyrr en flugvélin var farin að nálgast Bretlandseyjar. Þá er mér litið á hægri fótinn og sé að hællinn á skónum er farinn að dingla. Þegar ég skoðaði þetta nánar sá ég að hællinn hékk á smá skinntætlu. Ég fór úr skónum og sá að ekki var annað að gera en að slíta skinnböndin sem skildu á milli hæls og skóar. En þegar þar var komið sögu stóðu fjórir járngaddar niður úr skónum. Inn í hælnum var járnplata og gengu járngaddarnir niður úr henni og í gegnum skóinn. Gaddarnir voru úr hörðu járni og reyndi sagnfræðingurinn að beygja þá en þrátt fyrir að vera afkomandi Frímanns sterka úr Fljótunum bar það engan árangur. Við reyndum að spenna járnplötuna upp en höfðum ekkert annað en plasthnífapör að grípa til. Nú voru góð ráð dýr. Þarna sat ég með skaðræðisvopn í höndum um borð í flugvél sem var að fara að gera sig klára til lendingar á Bretlandseyjum Það var eins gott að ég var ekki á leið til Bandaríkjanna.
Það var ekki annað að gera að fara úr hinum skónum og síðan fór ég á sokkunum aftur í vél til flugfreyjanna með vopnið vel falið í höndunum eins og dæmigerður flugvélaræningi. Þær urðu alveg hissa og höfðu ekki séð annað eins en sem betur fer þá fannst þeim greinilega ekki að ég væri líkleg til hryðjuverka þannig að sé fékk bara samúð hjá þeim. Þær gáfu mér bláa skokka sem Saga class farþegar fá og sögðu að það væri betra fyrir mig að hafa þá utan um mína sokka. Það myndi enginn taka eftir því að ég væri á sokkaleistunum. Ég skyldi bara setja skóna niður í handtöskuna.
Þegar vélin var lent biðum við með að fara út úr vélinni þangað til flestir væru farnir þannig að enginn færi að stíga á fætur mínar. Síðan gengum við út úr vélinni og eftir landganginum inn í flugstöðvarbygginguna. Það var grenjandi rigning í Glasgow þannig að ég varð strax blaut í lappirnar í landganginum. Ég sá ekki að nokkur tæki eftir fótabúnaði mínum en sjálfri hefði mér liðið betur í mínum eigin svörtu skokkum heldur en heiðbláum Saga class sokkum. En þannig gekk ég í gegnum vegabréfsskoðun og vonandi er þetta í fyrsta og síðasta skipti sem ég kem á sokkaleistunum til Skotlands. þegar við vorum búin að fá töskurnar okkar flýtti ég mér að ná í kuldaskóna mína sem ég hafði meðferðis.

2 Comments:

At 2:39 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Mér sýnist að það sé tími til kominn að endurnýja skóbúnaðinn. Eru ekki góðar útsölur í gangi?

Kveðja
Sigrún

 
At 2:46 e.h., Blogger Gunna Steina said...

Það er sko nóg af útsölum!

 

Skrifa ummæli

<< Home