föstudagur, október 11, 2013

Á Sikiley í október 2011



Sikileyjarferðin í október 2011 er eftirminnileg. Frá Palermo fórum við með rútu til Cataniaflugvallar á Suður Sikiley við rætur Etnu. Þar beið okkar bílaleigubíll og þaðan keyrðum til til strandbæjarins Marina de Ragusa.
Það var alveg klikkað að keyra á Sikiley. Við gátum keyrt hraðbrautina meðfram ströndinni eins og maðurinn á bílaleigunni ráðlagði okkur. Við byrjuðum að keyra eftir henni. Þar var ansi hratt keyrt og við ákváðum að færa okkur yfir á sveitaveginn Þetta var eins og Vesturlandsvegurinn í brjálaðri umferð þegar allir eru að flýta sér. Menn voru að taka fram úr þó að það væri bein lína og voru óþolinmóðir alveg upp í rassinum á okkur að reyna að fara framúr. Við stoppuðum tvisvar á leiðinni bara til að slappa af. En leiðin var mjög falleg og landslagið tignarlegt á mörgum stöðum.

Íbúðin sem við vorum búin að taka okkur á leigu var rétt fra ströndinni og þó að við værum á ferðalagi utan aðal ferðamannatímans þá var verðrið mjög gott og yndislegt að vera í þessum bæ, Marina de Ragusa,  sem er vinsæll af Ítölum og Sikileyjarbúum á sumrin þá eru þar um 80.000 manns. Þegar við vorum þar voru þar aðeins um 3.000.

Á næsta horni við okkur var matvöruverslun með hagstætt verð og seldi allt af öllu og ofar í brekkunni var stór kjörbúð með dýrari varning. Við vorum rétt við gamla bæinn og heyrðum í kirkjuklukkunum. Það var  örstutt að ganga að torginu þar sem gömlu mennirnir hittast til að spjalla. Við torgið er banki, apótek, veitingahús og búðir. Inn í miðri viku var mjög rólegt í Marina de Ragusa en á laugardeginum fór allt að lifna við og fleiri veitingastaðir og ísbúðir opnuðu. Það streymdi að fólk úr öðrum bæjum og sveitum.

Ská á móti íbúðinni okkar var stór villa á þremur hæðum. Þar bjuggu hjón með fimm hunda og einn kött. Það var smá pirrandi þegar hundarnir geltu. Eigandinn var dökkur á brá og brún og var sagnfræðingurinn að spekúlera hvort þetta væri nokkuð Gabriel Marquise, Suður Ameríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahöfundurinn. Honum fannst nágranninn svo líkur honum. Ég heyrði hins vegar ekki betur en að konan hans kallaði Anton á eftir honum þegar hann gekk upp brekkuna með fjóra af hundunum í bandi. ;-)
Í Marina de Ragusa áttum við rólega daga en fórum líka í bíltúra  Við keyrðum til bæjanna Ragusa og Scicli
se eru á skrá Unesco. Árið 1693 varð mikill jarðskjálfti á þessu svæði. Margir bæir í dalnum fyrir ofan fóru í rúst. Þeir voru byggðir aftur í barrok stíl og þykir endurbyggingin hafa tekist vel og er fallega skipulögð. Það var mjög sérstakt að koma til Scicli og erfitt að lýsa því nema með myndum.

Fá Sikileyjarferðinni hefur leið okkar legið til Parísar, Amsterdam, Spánar, Prag og Danmerkur. Nú er að koma að stóru ferðinni til Ástralíu. En þangað ætlum við að fara til að hitta dóttur okkar og fjölskyldu.
Ef ég verð í betra internetsambandi í þeirri ferð heldur en á Sikiley þá mun ég segja frá ferðinni á þessari síðu.