miðvikudagur, október 05, 2011

Á Sikiley





Að koma til Sikileyjar frá Íslandi er eins og að hoppa inn hásumarið. Hitinn að kvöldi 1. október var um 25 stig. Á flugvellinum beið okkar bílstjóri sem sérstaklega var kominn til að sækja okkur og keyra til Novecente B&B, gistinguna hjá Dario á Via Roma. Bílstjórinn hélt á spjaldi með nafninu mínu og vorum við því fljót að finna hann. Í Palermo er umferðin snarklikkuð og bílamergðin yfirþyrmandi. Bílstjórinn sagði okkur að það vantaði neðanjarðarlestarkerfi í borgina þess vegna væri svona mikið af bílum og öðrum farartækjum. Í borginni mega gangandi vegfarendur vara sig. Það er erfitt að fara yfir götur og ökumenn fara ekki endilega eftir umferðarreglum og flauta í gríð og erg.
Leiðin að Noecente tók um hálftíma og keyrðum við í gengum borgina. Það var mjög þægilegt að fá keyrslu heim að dyrum gistiheimilisins. Á móti okkur tók Dario, ungur maður sem rekur Novecente. Þetta er þriggja stjörnu gisting og allt mjög huggulegt, hreint og fínt. Húsið er gamalt og það er mjög hátt til lofts, ca, fjórir metrar og flottir listar í loftinu. Herbergin eru fimm og er hvert með sínu baðherbergi. Þau eru að vísu hinum megin við ganginn og er það gert til að eyðileggja ekki loftlista og byggingarlag. Við herbergið okkar voru litlar svalir sem maður þorfði varla út á vegna þess að gistiheimilið er á 5. hæð í húsi með mikla lofthæð á hverri hæð.

Morgunmatur er framreiddur í borðstofu þar sem gestir sitja saman við borðstofuborð. Mjög heimilislegt. Dario bakar sjálfur brauðið með morgunmatnum en hann dæmigerður ítalskur með mikið af sætum kökum og ávöxtum.

Við komum til Palermo að kvöldi og vorum orðin mjög svöng. Höfðum aðeins fengið okkur smávegis um morguninn og síðan nælt okkur í samloku í London en þar stoppuðum við stutt á milli fluga og það gafst ekki tækifæri til að setjast niður og fá sér almennilega borða. Dario benti okkur á veitingastað sem heitir Casa des Broedes á Corso Vittorio Emanuel. Hann pantaði fyrir okkur borð en án þess hefði ekki verið auðvelt fyrir okkur að fá borð. Við borðuðum þarna sikileyskan mat sem var tvírétta og bragðaðist vel.