Gunna Steina
mánudagur, október 13, 2008
miðvikudagur, október 08, 2008
Afmæli á Il Pozzo
Skálað í stofunni í Verenda íbúðinni á Il Pozzo
Fyrir framan íbúðina höfum við bæði setkrók og borðstofuborð.
Carla skenkir rauðvín sem framleitt er á búgarðinum Il Pozzo.
Hér býður mamma hennar Cörlu norskri konu upp á spes Toskana rétt
Hér er Carla að skera niður reykt og hangið svínalæri að hætti Toskanabúa
Afmælið hófst með því að skálað var í freyðivíni í íbúðinni okkar. Síðan gengum við niður á neðri hæðina þar sem mamma hennar Cörlu var á fullu að undirbúa kvöldmatinn. Á sumrin er meira um að vera hér en nú eru bara gestir í þremur íbúðum af átta. Tvær norskar konur í einni íbúðinni, danskt par með ungabarn í þeirri annarri og síðan Friðrik og ég í þeirri þriðju. Þetta var hópurinn sem hittist undir fordrink í arinstofunni og talaði saman á skandinavisku. Hinir gestirnir vissu að vísu ekki að um afmælisveislu var að ræða enda greiddu allir fyrir máltíðina á eigin vegum og á sínu eigin gengi.
Og þvílík máltíð. Þeir sem hafa lesið ítalska matseðla vita að þeir eru margrétta. Þegar maður skilur ekki ítölsku er erfitt að panta. Þess vegna er mjög gaman að lenda í ítalskri matarveislu en hún getur ekki endað á öðru en því að maður stendur á blístri.
Máltíðin byrjaði á forrétti sem samastóð af snittum, ólífum, ostum og súpu. Síðan kom niðursneidd hráskinka og brauð, þar næst frábært pasta sem við fengum okkur tvisvar af vegna þess að við héldum að það væri aðal máltíðin en þá átti eftir að koma kjötmáltíð, svínakótelettur með salati og kartöflum og að lokum eftirréttur, dýrindis súkkulaðikaka með rjómadesert, kaffi og líkjör. Með matnum var boðið upp á rauðvín sem framleitt er á búgarðinum Il pozzo.
Ég spurði Cörlu hvað húsin á Il Pozzo eru gömul og hún sagði að þau væru frá þrettándu öld. Þessu get ég vel trúað því þó að allt sé hérna mjög smart og skemmtilega skreytt þá eru veggir og gólf greinilega mjög gömul. Þegar sagnfræðingurinn heyrði að húsakynnin væru frá 13. öld fór hann að spá í hvort Sturla Sighvatsson hefði hugsanlega komið hér við og fengið sér rauðvínsglas á leið sinni suður til Rómar á fund páfans á einmitt þrettándu öld.
þriðjudagur, október 07, 2008
Á Il Pozzo búgarðinum í Toskana
Útsýni frá svefnherbergisglugganum
Horft út um svefnherbergisgluggann.
Sagnfræðingurinn að störfum við íbúðina í Il Pozzo.
Horft frá íbúðinni yfir sundlaugargarðinn og byggðina í hlíðinni á móti.
El Pozzo i Toskana er fallegur gamall búgarður sem hefur verið breyttur í ferðamannaíbúðir. Þar eru einnig ræktaðar ólífur, hunang og vín. El Pozzo stendur hátt upp í hlíðinni í gróðursælum dal. Eftir dalnum liðast ánin Arno sem einnig rennur í gegnum Flórens og til sjávar ekki langt frá Pisa. Hér er áin friðsæl og er umvafin gróðri. Eftir dalbotninum má stundum sjá litla lest sem er á leið til bæjanna ofar í dalnum. Íbúðirnar átta og allt umhverfi húsanna er fallega skreytt með skemmtilegum munum og gróðri. Sundlaugin og umhverfið í kringum hana er sérstaklega fallegt.
El Pozzo i Toskana er fallegur gamall búgarður sem hefur verið breyttur í ferðamannaíbúðir. Þar eru einnig ræktaðar ólífur, hunang og vín. El Pozzo stendur hátt upp í hlíðinni í gróðursælum dal. Eftir dalnum liðast ánin Arno sem einnig rennur í gegnum Flórens og til sjávar ekki langt frá Pisa. Hér er áin friðsæl og er umvafin gróðri. Eftir dalbotninum má stundum sjá litla lest sem er á leið til bæjanna ofar í dalnum. Íbúðirnar átta og allt umhverfi húsanna er fallega skreytt með skemmtilegum munum og gróðri. Sundlaugin og umhverfið í kringum hana er sérstaklega fallegt.
Búgarðurinn er innan girðingar sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Til að komast inn á landareignina þarf að fara inn um stórt járnhlið sem er læst. Við fengum í hendurnar sjálfvirkan opnara sem við beinum að hliðinu úr bílnum og þá opnast hliðið hægt og rólega. Síðan keyrum við inn fyrir í herlegheitin eins og millar og lokum hliðinu aftur.
El Pozzo er rekið af snaggaralegri ungri konu, Cörlu, sem er varla yfir þrítugt. Hún er sérstaklega viðfeldin og almennileg. Hún er tvisvar búin að baka hjartalaga köku fyrir okkur og vill allt fyrir okkur gera. Á búgarðinum er lítil hugguleg veitingastofa þar sem mamma Cörlu eldar Toskana mat 3-4 sinnum að sumri. Utan aðalferðamannatímans eldar hún sjaldnar. Svo skemmtilega vill til að hún ætlar einmitt að elda í dag 8. október. Þar mun ég því halda upp á afmælið mitt.
laugardagur, október 04, 2008
Flórens er flott
Flórens er ótrúlega flott borg í fallegu umhverfi. Hér var vagga endurreisnartímans og hingað á nútíma menningin sínar rætur segir sagnfræðingurinn. Við erum búin að skoða merkileg söfn, glæsilegar byggingar og listaverk. En það er líka gaman að ganga um þröngar götur gamla bæjarins og skoða mannlífið.
Umferðarmenningin er svipuð hér eins og annars staðar þar sem við höfum verið á Ítalíu. Hún er mikil og hröð og það er varla stoppað fyrir gangandi vegfarendum nema þeir æði út á götuna. Þá er spurning hvernig fer.